Í lok mars 2019 var virði kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík, sem er í eigu Arion banka, bókfærð á 6,9 milljarða króna í bókum bankans. Um síðustu áramót hafði virði hennar verið fært niður um 4,2 milljarða króna frá þeim tíma og bókfært virði hennar er nú 2,7 milljarðar króna.
Þetta kemur fram í ársreikningi Arion banka sem birtur var í liðinni viku.
Verksmiðjan hefur ekki verið í gangi frá því í september 2017. Nokkrum mánuðum síðar, í janúar 2018, fór félagið sem byggði hana í þrot en áætlaður kostnaður við uppsetningu verksmiðjunnar var um 22 milljarðar króna.
Arion banki var stærsti kröfuhafi verkefnisins og tók yfir verksmiðjuna. Tilgangurinn átti að vera sá að greiða úr þeim vandkvæðum sem voru til staðar við rekstur hennar, uppfylla þau leyfi sem þurfti til og selja hana síðan þegar verksmiðjan væri orðin starfhæf að nýju.
Óvissa á mörkuðum gerir sölu ólíklega
Í ársreikningi Arion Banka segir að eftir að eignir United Silicon voru færðar til Stakksberg, dótturfélags bankans, hafi það unnið að því að draga úr óvissu varðandi endurgangsetningu verksmiðjunnar, meðal annars með því að fá starfsleyfi rekstrarins yfirfærð til félagsins, afla félaginu nýs raforkusamnings og vinna að grunn verkfræðilegri hönnun þeirra úrbóta sem nauðsynlegt er að unnar séu í aðdraganda endurgangsetningar. „Stakksberg er á lokastigi vinnu við gerð nýs umhverfismats fyrir verksmiðjuna. Fyrirhugaðar úrbætur eru innan fyrirliggjandi deiliskipulaga. Engu að síður er sú krafa á Reykjanesbæ að breyta núverandi deiliskipulagi til að endurspegla byggingarleyfi sem þegar hefur verið gefið út af sveitarfélaginu. Markmið bankans er að selja rekstur Stakksbergs á grundvelli þeirrar vinnu sem unnin hefur verið í þessu skyni.“
Slík sala er þó háð mikilli óvissu, enda virðist ekki vera mikill markaður fyrir verksmiðjuna sem stendur. Í afkomuviðvörun Arion banka sem send var út í janúar kom fram að vegna „óvissu á mörkuðum með sílikon hafa nokkrir framleiðendur dregið úr framleiðslu eða lokað verksmiðjum. Því er til staðar ónýtt framleiðslugeta sem leiða má líkur að hafi neikvæð áhrif á söluferli sílikonverksmiðjunnar í Helguvík.“