Samherji hf. hefur sent erindi til stjórnar RÚV og starfandi útvarpsstjóra vegna fréttar sem var flutt í tíufréttum RÚV síðastliðinn fimmtudag, þar sem fjallað var um þróunaraðstoð og sagt að Samherji hefið tekist að „afla sér kvóta í landinu með því að múta embættismönnum, eins og fjallað var um í Kveik í vetur, heimamenn nutu því ekki aðstoðarinnar sem veitt var.“
Í erindinu krefst Samherji afsökunarbeiðni og leiðréttingar á meiðandi fréttaflutningi.
Samherji hefur verið í miklu brimróti undanfarna mánuði eftir umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks um mútugreiðslur, meint peningaþvætti og skattsniðgöngu Samherja, sem byggði að mestu á tugþúsundum gagna og uppljóstrun Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi starfsmanns Samherja í Namibíu.
Í bréfi sem lögmenn Samherja hafa sent til RÚV segir að fullyrðing fréttamannsins, Hallgríms Indriðasonar, eigi sér „enga stoð í raunveruleikanum og er úr lausu lofti gripin.“ Þar segir enn fremur að mál Samherja sé fréttastofu RÚV „undarlega hugleikið“, að í fréttinni sé því haldið fram að starfsmenn Samherja hafi gerst sekir um alvarlega refsiverða háttsemi með því að múta embættismönnum í Namibíu, en þeir hafi hvorki verið sakfelldir né ákærðir fyrir slíka háttsemi. Auk þess sé enginn starfsmaður Samherja með réttarstöðu sakbornings vegna málsins.
Auk Shanghala og Esau voru James Hatuikulipi, sem hætti sem stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor nýverið, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau, Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans og Pius Mwatelulo, sem einnig tengist Hatuikulipi fjölskylduböndum, ákærðir.
Í morgun var svo Mike Nghipunya, forstjóri ríkisútgerðarinnar Fischor í Namibíu, handtekinn vegna málsins. Nghipunya var vikið tímabundið úr starfi í desember síðastliðnum. Hann er tíundi einstaklingurinn sem er handtekinn í Namibíu vegna Samherjamálsins.
Mál Samherja er til rannsóknar í Namibíu, á Íslandi og í Noregi. Þá hafa eignir verið frystar í Angóla vegna málsins og þar á sér einnig stað sakamálarannsókn.
Í bréfinu sem lögmaðurinn Magnús Óskarsson, sonur Óskars Magnússonar, stjórnarmanns í Samherja, skrifar undir gerir Samherji alvarlegar athugasemdir við framsetningu fréttarinnar sem birtist á fimmtudag. Í tilkynningu um það á vef Samherja segir meðan annars að þar hafi verið „viðtal við erlendan viðmælanda um spillingu en látið líta út fyrir að umræðuefnið væri mál Samherja. Viðmælandinn minntist þó ekki einu orði á fyrirtækið eða starfsemi þess. Á meðan voru sýndar myndir af stjórnendum Samherja. Alvarlegast sé þó að í fréttinni hafi verið fullyrt að stjórnendur Samherja hafi gerst sekir um alvarlega refsiverða háttsemi með því að múta embættismönnum í Namibíu en þeir hafi hvorki verið sakfelldir né ákærðir fyrir slíka háttsemi. Þá sé enginn starfsmaður Samherja með réttarstöðu sakbornings vegna málsins.
Er þess óskað að Ríkisútvarpið leiðrétti meiðandi ummæli í fréttinni 13. febrúar og biðjist afsökunar. Þá áskilur Samherji sér rétt til að höfða mál vegna þessara ummæla og annarra.“
Hægt er að lesa bréf lögmanna Samherja hér.
Magnús skrifaði grein í Morgunblaðið nýverið þar sem hann gagnrýndi fréttastofu RÚV fyrir ófagleg vinnubrögð, sagði fréttamenn og starfsmenn fyrirtækisins brjóta lög um RÚV í störfum sínum og að það hefði meðal annars verið gert í umfjöllunum um meint mútumál Samherja í Namibíu.