Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrverandi ritstjóri og útgefandi Fréttablaðsins, sækist eftir því að setjast í stjórn fjarskipta- og fjölmiðlafélagsins Sýnar á komandi aðalfundi hans, sem fram fer 20. mars næstkomandi. Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, í dag.
Kristín lét af störfum hjá Fréttablaðinu í september í fyrra skömmu eftir eigendaskipti þar og var á meðal þeirra sem sóttust eftir því að verða næsti útvarpsstjóri, en hlaut ekki brautargengi í þeirri vegferð.
Í Markaðnum segir auk þess að Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, sem setið hefur í stjórn VÍS undanfarin ár samhliða því að félag í hennar eigu var á meðal stærstu hluthafa þess félags, vilji einnig inn í stjórn Sýnar. Félag í eigu hennar og Guðmundar Þórðarsonar, K2B, keypti 1,6 prósent hlut í Sýn í byrjun árs en seldi 7,5 prósent hlut sinn í VÍS á svipuðum tíma. Svanhildur Nanna vék úr sæti stjórnarformanns VÍS árið 2018 þegar greint var frá því að hún og Guðmundur væru til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara fyrir meint umboðssvik, meint skattsvik, möguleg mútubrot og brot á lögum um peningaþvætti þegar olíufélagið Skeljungur og tengd félög voru keypt og seld á árunum 2008 til 2013. Það mál er enn til rannsóknar.
Sýn varð til þegar Fjarskipti, móðurfélag Vodafone á Íslandi, breytti nafni sínu á aðalfundi sínum í mars 2018. Nokkrum mánuðum áður, nánar tiltekið í desember 2017, höfðu Fjarskipti sameinað fjölmiðlastarfsemi inn í rekstur félagsins sem fól í sér meðal annars Stöð 2, Stöð2 Sport, Vísi, Bylgjuna, FM957 og Xið 977. Miðlana höfðu Fjarskipti keypt af 365 miðlum. Nafnabreytingin var framkvæmd svo að heitið væri meira lýsandi fyrir starfsemi hins sameinaða félags.
Því er um að ræða eitt stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins sem rekur meðal annars fréttastofu fyrir sjónvarp og útvarp og fréttavefinn Vísi.is, annan af mest sóttu fréttavefum landsins.
Krefjandi rekstur síðustu misseri
Tekjur fjarskipta- og fjölmiðlafélagsins Sýnar á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 voru 14,9 milljarðar króna, sem er 454 milljónum krónum lægri tekjur en félagið hafði á sama tímabili árið áður. Hagnaður Sýnar fyrir fjármagnsgjöld, afskriftir og skatta var 4,1 milljarður króna og lækkaði um 153 milljónir króna á milli ára.
Hagnaður Sýnar var hins vegar 384 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2019. Lykilástæða þess að Sýn skilaði hagnaði er að á fyrsta ársfjórðungi var bókfærður söluhagnaður vegna samruna P/F Hey, dótturfélags Sýnar hf. í Færeyjum og Nema, dótturfélag Tjaldurs, gekk í gegn á fjórðungnum og er 49,9 prósent hlutur Sýnar hf. í nýju sameinuðu félagi færður samkvæmt hlutdeildaraðferð og því ekki hluti af samstæðureikningsskilum Sýnar hf. frá byrjun þessa árs. Alls nam bókfærður söluhagnaður vegna þessa 817 milljónum króna.
Án þessa bókfærða söluhagnað vegna þeirrar sölu væri tap Sýnar á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 433 milljónir króna. Til samanburðar skilaði félagið 326 milljón króna hagnaði á sama tímabili 2018.
Í janúar greindi Sýn frá því að félagið hefði fært niður viðskiptavild, sem það hafði eignast við kaup á áðurnefndum fjölmiðlum frá 365 miðlum, um 2,5 milljarða króna.
Hlutabréfaverð í Sýn hefur hækkað umtalsvert það sem af er ári og um tæplega 30 prósent á síðustu þremur mánuðum. Ársuppgjör félagsins vegna ársins 2019 verður birt í næstu viku, þann 26. febrúar.