„Auðvitað hef ég miklar áhyggjur af því sem við sjáum allan orkufrekan iðnað vera að kljást við í dag,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í viðtali við Egil Helgason í Silfrinu á RÚV í morgun. Var hann þar spurður um stöðu álvers Rio Tinto í Straumsvík. „Við sjáum PPC á Bakka í miklum vandræðum. Við sjáum kísilverið í Helguvík í miklum vandræðum. Við sjáum öll álverin á Íslandi í taprekstri. Við sjáum að Kínverjar eru að taka til sín framleiðslu á málmum í orkufrekum iðnaði. Eru þeir að breyta leiknum? Þetta hefur sín áhrif á Íslandi.“
Bjarni sagðist hafa áhyggjur af því að Ísland nyti ekki lengur þess samkeppnislega forskots sem var grundvöllur þess að stóriðjuver komu til landsins. „Ég hef áhyggjur af því að það hefur enginn byggt álver í Evrópu í fimmtán, tuttugu ár. Eina stóra fjárfesting í áliðnaðinum er sú sem við sáum í Straumsvík fyrir nokkrum árum og hún virðist öll vera afskrifuð í dag. Af þessu er ástæða til að hafa áhyggjur.“
Til lengri tíma litið sagðist hann þó ekki hafa áhyggjur af hagkerfinu. „Við búum hér yfir grænni orku og hún verður eftirsótt í framtíðinni og við sem ferðamannaland erum ekki búin að taka neinum breytingum. Þannig að til lengri tíma hef ég engar áhyggjur af tækifærum Íslands en ég hef áhyggjur af stöðinni hjá orkufrekum iðnaði eins og hún blasir við akkúrat í dag.“
Bjarni sagist ekki geta tjáð sig um það hvað hann teldi að Landsvirkjun ætti nákvæmlega að gera til að „liðka fyrir“, eins og Egill spurði að. Hann benti hins vegar á þau tíðindi sem forstjóri Landsvirkjunar greindi frá í viðtali í morgun að Landsvirkjun vildi opinbera raforkusamninginn við Rio Tinto. „Það verður fróðlegt að sjá hvernig álframleiðandinn bregst við því.“
Taka þarf ákvörðun um söluna
Í viðtalinu í morgun var Bjarni einnig spurður um fyrirhugaða sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka og hvort að forsenda væri til að selja banka á þessum tímapunkti.
„Ég held að við munum ekki selja hann núna í mars, við munum ekki selja hann í apríl en við þurfum að taka prinsipp ákvörðunina: Erum við við sammála um það að það eigi að losa um eignarhald ríkisins á bankanum?“
Bjarni sagði það í sjálfu sér ekki skipta máli hvort hlutur ríkisins yrði seldur á næsta ári eða því þarnæsta. „Við erum í sölugírnum, ef maður mætti orða það þannig, við viljum að bankinn sé að undirbúa sig fyrir sölu og að Bankasýslan sé að leita að aðstæðum til að koma honum í verð.“
Bjarni sagði það gríðarlegt hagsmunamál að ríkið lægi ekki með á annað hundrað milljarða í fjármálafyrirtæki á sama tíma og allir væru sammála um að það þurfi að auka innviðafjárfestingar. „Þetta er algjörlega rakið mál.“
Spurður hvort að næst stæði til að selja Landsbankann sagði Bjarni að ekki væri gott að vera með tvo banka til sölu á sama tíma. Ekki verði rætt um sölu á Landsbankanum meðan ekki væri búið að ákveða sölu á Íslandsbanka. „Við erum líka þeirrar skoðunar að ríkið eigi að eiga kerfislega mikilvægan banka [...] og verðum að tryggja að kerfislega mikilvægur banki sé með höfuðstöðvar á Íslandi. Landsbankinn er slíkur banki.“