Alls voru 5.036 hryssur notaðar í blóðmerahald árið 2019. Folöldum hryssanna er alla jafna slátrað til kjötframleiðslu eða þau sett á til endurnýjunar. Sum þeirra eru nýtt til reiðhestaræktunar.
Þetta kemur fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við fyrirspurn frá Ágústi Ólafi Ágústssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, um blóðmerahald.
Hormón í blóði notað í frjósemislyf
Blóðberahald kallast það þegar fylfullar hryssur framleiða sérstakt hormón í fylgjunni á fyrri hluta meðgöngu, eða á 40. til 120. degi. Hormónið hefur það hlutverk að viðhalda meðgöngu með því að örva starfsemi eggjastokka og fjölga gulbúum.
Hægt er að vinna hormónið úr blóði hryssa á þessu tiltekna tímabili meðgöngunnar og vinna úr því frjósemislyf. Það er einna helst notað til að samstilla gangmál dýra, mest í svínarækt. Frjósemislyfið er notað út um allan heim, en í hverfandi magni á Íslandi. Hryssublóði hefur verið safnað úr fylfullum hryssum í kjötframleiðslu hér á landi í um 40 ár, segir í svari Kristjáns Þórs.
Samkvæmt svari ráðherra og upplýsingum frá Matvælastofnun var hestahald, þar sem framkvæmd er blóðtaka úr hrossum til framleiðslu afurða, stundað á vegum 95 aðila árið 2019. Ráðuneytið hafi aftur á móti ekki upplýsingar um veltu einstaklinga og fyrirtækja sem stunda blóðmerahald.
Alvarlegar athugasemdir gerðar á 3 bæjum
Ágúst Ólafur spurði jafnframt hvernig blóðmerahald uppfylli lagaákvæði um dýravernd og við hvaða réttarheimild sé stuðst. Í svari ráðherra kemur fram að um blóðmerahald gildi lög um velferð dýra og reglugerð um velferð hrossa.
„Matvælastofnun annast eftirlit með framkvæmd laganna og reglugerðarinnar og hefur eftirlit með því að ákvæðum þeirra sé fylgt. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun hafa síðustu þrjú ár verið gerðar alvarlegar athugasemdir á þremur bæjum sem tengjast blóðmerahaldi og var blóðmerahaldi þá hætt á viðkomandi bæjum.“
Þingmaðurinn spurði í síðasta lagi í hvaða Evrópuríkjum blóðmerahald hafi verið aflagt en samkvæmt svarinu hefur ráðuneytið ekki upplýsingar um blóðmerahald í öðrum ríkjum.