Þrjú ný tilfelli af veirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómi voru staðfest á veirufræðideild Landspítala í kvöld. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum ríkislögreglustjóra.
Þar segir að um sé að ræða tvær konur og einn karl. Þau eru á sextugs- og fimmtugsaldri. „Af þessum tilfellum hafa tvö tengingu við Norður-Ítalíu en þessir einstaklingar komu til landsins frá Veróna á Ítalíu á laugardaginn (29.2.2020). Unnið er að smitrakningu á þriðja tilfellinu. Öll þrjú sýna einkenni COVID-19 sjúkdóms, en eru þó ekki mikið veik.“
Fyrr í dag var greint frá því að þrjú önnur smit höfðu greinst og því hefur fjölgað í hópi smitaðra um sex á sólarhring. Þeir eru nú níu talsins. Maðurinn sem greindist fyrstur Íslendinga með veiruna hefur verið útskrifaður af Landspítala og er nú í heimaeinangrun.
Hátt í 300 manns í sóttkví á landinu öllu
Hátt í 300 manns eru í sóttkví á landinu öllu.
Nánari upplýsingar um heimasóttkví má nálgast á vef landlæknis. Svo gæti farið að fleiri muni þurfa að fara í sóttkví á næstu dögum. Atvinnurekendur og stjórnendur á vinnumarkaði eru hvattir til að sýna stöðu þessa fólks skilning.
Vinna að því að koma upplýsingum til fólks
Upplýsingateymi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra vinnur að því að koma upplýsingum um COVID-19 til þeirra sem teljast til viðkvæmra hópa. Þetta eru til að mynda aldraðir einstaklingar og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma. Þetta verður gert í samráði við sjúklingasamtök, fagfélög og hagsmunahópa þessara einstaklinga.