Búið er að fresta brottvísun ungu flóttabarnanna Ali, Kayan, Saja og Jadin og foreldra þeirra frá Írak til Grikklands um óákveðinn tíma. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu Semu Erlu Serdar, stofnanda Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, á Facebook-síðu hennar nú rétt í þessu.
Hún segir að sú skýring sem gefin hafi verið á því sé að brottvísunin strandi á grískum stjórnvöldum sem segist ekki geta tekið á móti þeim vegna aðstæðna þar.
Kjarninn greindi frá því í morgun að kærunefnd útlendingamála hefði hafnað beiðni um endurupptöku á máli fjölskyldunnar.
„Það þurfti semsagt grísk stjórnvöld til þess að stöðva ómannúðlega og grimmilega meðferð íslenskra yfirvalda á börnum á flótta, sem voru búin að leigja einkaflugvél undir þau, svo það sé alveg á hreinu! Börnin eru óhult í bili, en ég neita að trúa því að þeim verði tilkynnt um brottvísun í þriðja skiptið,“ skrifar Sema Erla og bætir því við að slíkt ofbeldi muni aldrei líðast.
Þá telur hún að við þurfum öll að halda áfram að fylgjast mjög vel með stöðu mála og passa upp á að íslensk yfirvöld reyni ekki „að framkvæma forkastanlegar aðgerðir eins og þá sem stóð til að gera í þessu tilfelli í skjóli nætur.“
Það er búið að fresta brottvísun ungu flóttabarnanna Ali, Kayan, Saja og Jadin og ungra foreldra þeirra frá Írak til...
Posted by Sema Erla Serdar on Tuesday, March 10, 2020
Yfirlýsing frá Útlendingastofnun barst fjölmiðlum klukkan 14:30.
Að gefnu tilefni vill Útlendingastofnun koma því á framfæri að grísk stjórnvöld hafa ekki hafnað því að taka við einstaklingum sem hafa fengið alþjóðleg vernd í Grikklandi.
Stoðdeild ríkislögreglustjóra undirbýr nú ferð til Grikklands með fjölskyldu og einstakling, sem var synjað um efnislega meðferð umsókna þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi vegna þess að þau njóta nú þegar alþjóðlegrar verndar í Grikklandi.
Ferðin var á áætlun í þessari viku en hlutaðeigandi hefur verið tilkynnt að hún muni frestast. Samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild er ástæðan sú að boðleiðum fyrir endursendingarbeiðnir í grísku stjórnsýslunni hefur verið breytt og því liggur ekki fyrir samþykki frá réttu stjórnvaldi. Endursendingarbeiðni hefur nú þegar verið send þar til bæru stjórnvaldi til afgreiðslu.
Það er því ekki rétt að grísk stjórnvöld hafi hafnað því að taka aftur við einstaklingum sem hafa fengið alþjóðleg vernd í Grikklandi vegna aðstæðna þar í landi.