Samherji Holding ehf., annar helmingur Samherjasamstæðunnar, bætti í gær við sig 3,05 prósent hlut í Eimskip. Við það fór eignarhlutur félagsins í flutningafyrirtækinu upp í 30,11 prósent og þar með myndaðist yfirtökuskylda.
Í tilkynningu til Kauphallar segir að innan fjögurra vikna muni Samherji gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð.
Þar er haft eftir Björgólfi Jóhannssyni, starfandi forstjóra Samherja, að tilgangurinn með þessum auknu hlutafjárkaupum sé fyrst og fremst að sýna þá trú sem Samherji hefur á rekstri Eimskips. „Eimskip er allt að einu í meirihlutaeigu íslenskra lífeyrissjóða sem saman eiga rúmlega helming hlutafjár. Er það skilningur minn að stjórn Eimskips og stjórnendur hafi verið einhuga um þær miklu breytingar sem gerðar hafa verið á rekstrinum. Samherji telur Eimskip vel til þess fallið að vera áfram skráð í kauphöll og vonar að sem flestir hluthafar, stórir og smáir, sjái hag sínum best borgið með því að styðja áfram við þá uppbyggingu og fylgi félaginu um ókomin ár.“
Samstæða með mikla fjárfestingagetu
Hluthafafundir Samherja samþykkti 11. maí 2018 að Samherjasamstæðunni yrði skipt upp í tvennt. Skiptingin var látin miða við 30. september 2017. Eftir það er innlendu starfsemin og starfsemi fyrirtækisins í Færeyjum undir hatti Samherja hf. en önnur erlend starfsemi og hluti af fjárfestingarstarfsemi á Íslandi í félaginu Samherji Holding ehf. Á meðal þeirra eigna sem færðar voru þangað yfir voru eignarhlutir Samherja í dótturfélögum í Þýskalandi, Noregi, Bretlandi og í fjárfestingafélagi á Íslandi.
Félögin tvö stunda ekki einungis viðskipti með sjávarafurðir. Samherji hf. á til að mynda stóran hlut í smásölurisanum Högum, en það er sjötti stærsti hluthafi þess með 4,22 prósent eignarhlut. Samherji Holding ehf. er síðan stærsti einstaki eigandi hlutabréfa í Eimskip, með nú 30,11 prósent eignarhlut. Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Samherja, er stjórnarformaður Eimskips og í janúar í fyrra var Vilhelm Már Þorsteinsson, frændi þeirra, ráðinn sem forstjóri skipafélagsins.
Rannsóknir vegna meintra mútugreiðslna í Namibíu
Samherji hefur verið í miklu brimróti undanfarna mánuði eftir umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks um mútugreiðslur, meint peningaþvætti og skattsniðgöngu Samherja, sem byggði að mestu á tugþúsundum gagna og uppljóstrun Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi starfsmanns Samherja í Namibíu.
Þegar er búið að handtaka og ákæra Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, og fjóra aðra menn fyrir að hafa þegið 103,6 milljónir namibískra dollara, jafnvirði 860 milljóna íslenskra króna, í greiðslur fyrir að tryggja félögum tengdum Samherja eftirsóttan kvóta í landinu. Auk Shanghala og Esau voru James Hatuikulipi, sem hætti sem stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor nýverið, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau, Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans og Pius Mwatelulo, sem einnig tengist Hatuikulipi fjölskylduböndum, ákærðir.
Mál Samherja er til rannsóknar í Namibíu, á Íslandi og í Noregi. Þá hafa eignir verið frystar í Angóla vegna málsins og þar á sér einnig stað sakamálarannsókn.