Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir fordæmalausar aðstæður vera uppi í Reykjavík, á Íslandi og raunar í heiminum öllum vegna Covid-19 og viðbragða við henni. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu hans á Facebook í dag.
Hann greinir jafnframt frá því að neyðarstjórn borgarinnar fundi daglega og fari yfir stöðuna. „Í gær fundaði ég með almannavörnum til að fara yfir undirbúning samkomubanns og áhrif þess og útfærslu. Þetta verkefni er á höndum sóttvarnarlæknis og almannavarna en vitanlega skipta sveitarfélögin og starfsemi þeirra lykilmáli,“ skrifar hann.
Traustvekjandi að finna fyrir fagmennsku og yfirvegun
Þá bendir hann á að ákvarðanir um samkomubann séu samkvæmt lögum teknar af heilbrigðisráðherra að tillögu sóttvarnarlæknis. Það sé traustvekjandi að finna þá fagmennsku og yfirvegun sem ráði ríkjum í öllum viðbrögðum og staðan sé metin dag frá degi til að hægt sé að taka réttar ákvarðanir og tímasetja þær rétt.
„Ljóst er að nýjustu tíðindin, flugbann Trump forseta mun hafa miklar og djúpstæðar afleiðingar fyrir Ísland, ferðaþjónustuna og stöðu efnahagsmála, til viðbótar við önnur áhrif veirunnar. Ég gerði borgarráði í morgun grein fyrir þeirri vinnu sem unnin er af hálfu neyðarstjórnar sem er fjölbreytt og yfirgripsmikil. Hún snertir bæði viðbúnað í þjónustu borgarinnar en líka forvarnir og skipulagningu á næstu skrefum. Jarðskjálftinn mikli á Reykjanesi reið yfir í miðjum borgarráðsfundi. Það er ekki eitt, það er allt,“ skrifar Dagur.
Munum komast í gegnum þetta
Hann segir að almannavarnarráð höfuðborgarsvæðisins muni hittast í fyrramálið. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi gætt þess að taka öll skref að undanförnu í góðum takti.
„Ég finn fyrir mikilli samstöðu hvarvetna í þessum verkefnum, milli ríkis og borgar, milli sveitarfélaga, innan yfirstjórnar, innan allrar starfsemi borgarinnar, meðal starfsfólks og íbúa, og þvert á alla pólitík.
Við höfum áður komist í hann krappann. Þetta er fordæmalaust en við munum fara í gegnum þetta líka og koma standandi niður, með samtakamætti, fagmennsku og yfirvegun, en um leið með þeim kjarki sem þarf til að taka nauðsynlegar ákvarðanir,“ skrifar hann að lokum.
það eru fordæmalausar aðstæður í Reykjavík, á Íslandi og raunar í heiminum vegna Covid-19 og viðbragða við henni....
Posted by Dagur B. Eggertsson on Thursday, March 12, 2020