Jarðskjálfti, 5,2 að stærð, mældist norðan við Grindavík kl. 10:25. Skjálftinn fannst mjög greinilega víða á höfuðborgarsvæðinu. Annar skjálfti, 3,0 að stærð, mældist skömmu fyrr eða kl. 10:15 á svipuðum slóðum.
Upptök stærri skjálftans voru um 3,6 kílómetrum norður af Grindavík, samkvæmt vef Veðurstofu Íslands. Mikill fjöldi minni skjálfta hefur mælst á svæðinu síðan kl. 10 í morgun, margir þeirra yfir tveimur að stærð.
Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands segir í samtali við Kjarnann að ekkert bendi til þess að eldsumbrot séu að hefjast á svæðinu.
Ármann segir að stóri skjálftinn hafi mælst á það miklu dýpi að það sé ósennilegt, en samkvæmt vef Veðurstofunnar voru upptök skjálftans 8,7 kílómetrum undir yfirborði jarðar.