Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í nótt að ferðum
frá Evrópulöndum utan Bretlands til Bandaríkjanna yrði aflýst í þrjátíu daga.
Hann sagði Evrópusambandinu hafa mistekist að hefta útbreiðsluna. Yfirvöld í
Bandaríkjunum hafi hins vegar brugðist hratt við og að tilfelli nýju
kórónuveirunnar þar í landi væru fá miðað við í Evrópu. Aðgerðirnar væru „harðar en nauðsynlegar“.
1.135 tilfelli COVID-19 hafa verið greind í Bandaríkjunum og þar hafa 38 látist vegna sjúkdómsins. 23 ríki hafa lýst yfir neyðarástandi vegna útbreiðslunnar..
Forsetinn, sem ávarpaði þjóð sína frá forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu, sagði að gripið yrði til þessara aðgerða til að „halda nýjum tilfellum frá því að komast inn fyrir landsteinana“.
Orðrétt sagði Trump: „Við munum aflýsa öllum ferðalögum frá Evrópu til Bandaríkjanna næstu þrjátíu daga. Þessar nýju reglur munu taka gildi á miðnætti á föstudag.“
Undantekningar verða á ferðabanninu og munu „ákveðnir Bandaríkjamenn“ sem hafa undirgengist „viðeigandi skoðun“ fá að ferðast. Sagði forsetinn að takmarkanirnar myndu ekki aðeins ná til „gríðarlegra viðskipta og vöruflutninga“ heldur einnig „annarra hluta þegar við fáum samþykki. Allt en kemur frá Evrópu til Bandaríkjanna er það sem við erum að ræða“.
Til að tryggja að allir vinnandi Bandaríkjamenn sem verða fyrir áhrifum veirunnar geti verið heima án þess að óttast um fjárhagslega afkomu sína þá verða að sögn Trumps fljótlega kynntar aðgerðir sem „eiga sér engin fordæmi“. Aðgerðirnar munu miða að því að hjálpa þeim sem eru veikir, í einangrun eða sóttkví og einnig þeim sem þurfa að sinna öðrum sem eru veikir af veirunni. Mun tillaga þessa efnis verða send þinginu fljótlega.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) March 12, 2020
Í ávarpi sínu greindi Trump svo frá því að til stæði að veita litlum fyrirtækjum milljarða Bandaríkjadala að láni til að lágmarka áhrif veirusýkingarinnar á bandarískt hagkerfi. Þá hvatti hann þingið til að samþykkja „meiriháttar“ skattalækkanir í sama tilgangi. „Við ætlum að beita öllu afli alríkisstjórnarinnar og einkageirans til að vernda bandaríska borgara.“
Þvoðu þér um hendurnar
Minnti hann fólk svo á almennt hreinlæti. „Þvoðu þér um hendurnar,“ sagði hann m.a. og „haltu þig heima“.
Sagði hann að Bandaríkjamenn ættu bestu lækna í heimi og að „við erum öll í þessu saman. [...] Framtíð okkar er bjartari en nokkurn hefði getað órað fyrir“.
Hann lauk svo ávarpi sínu á orðunum: „Guð blessi þig og guð blessi Bandaríkin.“
Hægir á útbreiðslu um 3-5 daga
Árangur af ferðabanni er takmarkaður þegar smitsjúkdómur hefur þegar breiðst út á viðkomandi svæði sem bannið nær til. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem gerð var í kjölfar útbreiðslu nýju kórónuveirunnar í Wuhan-borg í Kína þar sem hún átti upptök sín. Er stjórnvöld höfðu sett á ferðabann til og frá borginni var það of seint til að hefta útbreiðsluna þar sem veiran hafði þá þegar breiðst út til annarra svæða. Það sem ferðabannið gerði var að hægja á útbreiðslunni um 3-5 daga.