Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segist hafa heyrt frá verslunarfólki að síðustu daga hefði það upplifað Þorláksmessu-traffík, algjörlega að ástæðulausu. Hann kom því á framfæri við þjóðina að engin ástæða væri til þess að hamstra mat og óþarfa hamstur setti gífurlegt og óþarft álag á verslunina í landinu.
„Það eru til nægar birgðir af mat í landinu, bæði af innfluttum mat og innlendum mat. Það er engin ástæða til þess fyrir almenning í þessu landi að hamstra mat eða aðrar nauðsynjavörur til heimilisins,“ sagði Andrés á blaðamannafundi í samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð í dag.
„Við hvetjum almenning til að haga innkaupum sínum til heimilisins með eðlilegum hætti, það er engin ástæða til annars,“ sagði Andrés og bætti við að sömuleiðis væri engin ástæða til þess að hamstra lyf í apótekunum, óvenju mikið væri til af lyfjum í landinu.
Samkomubann verður í gildi á Íslandi frá og með aðfaranótt mánudags. Undanfarna daga hafa borist fréttir af miklu álagi í matvöruverslunum, jafnvel þannig að ekki gefist ráðrúm til þess að fylla jafnóðum á hillurnar. Þegar samkomubannið tekur gildi verður lagt bann við því að fleiri en 100 manns verði á sama stað á sama tíma.
Bannið mun gilda um stórmarkaði og aðrar verslanir og verður fjölda þeirra sem geta verslað í einu í þeim stýrt, þótt útfærsla á því liggi ekki fyrir að svo stöddu. Það er þó engin ástæða fyrir fólk að rjúka til núna og hamstra mat, þar sem nægar birgðir eru til í landinu.