Hundrað tuttugu og átta manns hafa nú greinst með COVID-19 hér á landi. Flest smitin tengjast sem fyrr skíðasvæðum í Ölpunum en „það eru fleiri lönd að koma inn í þetta,“ að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis sem greindi frá því á upplýsingafundi kl. 14 í dag að fólk sem hefði nýlega komið frá bæði Danmörku og Bretlandi hefði greinst með veiruna.
Ekki hefur tekist að rekja uppruna þriggja smita hér á landi og var ekki óviðbúið að sú staða kæmi upp, að sögn Þórólfs. „Samt verður að segjast eins og er að maður er ánægður með að það hafi ekki greinst fleiri svona óvænt smit innanlands, enn sem komið er,” sagði sóttvarnalæknir á fundinum. Tveir sjúklingar liggja inni á Landspítala með COVID-19, hvorugur á gjörgæslu.
Mikið prófað hér á landi miðað við önnur ríki
Búið er að taka um 1.230 sýni, sem þýðir að það er búið að prófa um 0,3% þjóðarinnar fyrir veirunni. Þórólfur sagði það mikið í alþjóðlegum samanburði og að það skýrði væntanlega hversu margar sýkingar hafa greinst hér á landi miðað við höfðatölu.
Til þessa er búið að reyna að tefja framgang faraldursins hérlendis með einangrun fólks og með því að fá að almenning og fyrirtæki til að grípa til ákveðinna varúðarráðstafana. Þórólfur segir að þessu stigi sé nú ef til vill lokið, eftir að stjórnvöld boðuðu að blásið yrði til samkomubanns frá og með aðfaranótt mánudags.
„Sú aðgerð, henni er ætlað að hindra dreifingu veirunnar enn meira,” sagði sóttvarnalæknir. Framhald aðgerða mun ráðast af framgangi faraldursins, meðal annars því hvernig sýnatöku Íslenskrar erfðagreiningar ganga. Fyrirtækið ráðgerir taka um 1.000 sýni á dag frá öllum þeim sem vilja láta skima sig fyrir veirunni og hófst sýnatakan í dag.
Þórólfur sagðist hafa heyrt af því að fólk sem væri í sóttkví, sökum þess að það hefði orðið útsett fyrir smiti, hefði verið að panta sér tíma í sýnatökur. Hann ráðleggur fólki í sóttkví eindregið að fara ekki í sýnatökuna. Það væri bæði brot á sóttkvíarreglum og einnig væri það möguleiki að fólk fengi „falskt neikvætt sýni“ þrátt fyrir að vera með veiruna og freistaðist í kjölfarið til þess að yfirgefa sóttkvína. „Ég vil eindregið vara við þessu,“ sagði Þórólfur.
Læknar passi upp á lyfjaávísanir
Alma Möller landlæknir benti almenningi á að skoða vefsíðuna covid.is, nýja upplýsingasíðu landlæknisembættisins og almannavarna, þar sem finna má mikið magn upplýsinga um COVID-19.
Hún sagði að lyfjabirgðir í landinu hefðu verið auknar, en þrátt fyrir það væri mikilvægt að læknar ávísuðu lyfjum ekki í óhófi. „Það er mikilvægt að ávísað magn lyfja haldist sem eðlilegast, því annars gætu lyf hlaðist upp hjá sumum sjúklingum á meðan öðrum skorti,“ sagði landlæknir og bætti við að apótekum landsins hefði verið fyrirskipað að afgreiða ekki óþarflega mikið af lyfjum til fólks.
Nú þegar hafa 260 skráð sig í bakvarðasveit heilbrigðiskerfisins, fjöldi sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga og lækna, bæði til þess að sinna COVID-19 sjúklingum og einnig til þess að vera til taks og ganga í önnur störf innan heilbrigðiskerfisins, ef álag á kerfið eykst.