Sóttvarnarlæknir hefur lagt til við heilbrigðisráðherra að samkomubann verði sett á frá miðnætti 15. mars sem gildi í fjórar vikur. Viðburðir þar sem fleiri en hundrað manns koma saman verða óheimilir samkvæmt tillögunni. Það mun eiga við stóra vinnustaði, íþróttaviðburði, verslanir og kvikmyndahús svo dæmi séu tekin. Ekki verður þó löggæsla við stórmarkaði til að gæta þess að innan við hundrað fari þangað inn í einu heldur er almenningur hvattur til að framfylgja takmörkununum.
Á fámennari viðburðum skal fólk halda tveggja metra fjarlægð sín á milli. Bannið gildir ekki um flugvélar og skip og nær því ekki til alþjóðahafna og flugvalla.
Einnig verður takmörkun á skólastarfi. Framhaldsskólar og háskólar verða tímabundið lokaðir og menntun sinnt í gegnum fjarnám. Starf grunn- og leikskóla verður heimilt samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það verður því með öðrum hætti en nú er og háð tilteknum takmörkunum.
Þessar ráðstafanir ná til alls landsins.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði á blaðamannafundi í dag að þetta væri gert á grundvelli sóttvarnarlaga. Fundurinn var haldinn í kjölfar ríkisstjórnarfundar í morgun. „Þær aðferðir sem við höfum verið að beita hér á Íslandi og
hafa verið leiddar af okkar besta fólki, eru þær að greina fólk fljótt, að
einangra sjúka og beita sóttkví með mjög markvissum hætti,“ sagði Svandís. „Og
það má telja að þessi nálgun hafi þegar komið í veg fyrir fjölmörg innlend
smit.“
Nú væri komið að því að taka aðgerðir upp á næsta stig.
Fyrsta sinn í lýðveldissögunni
„Eins og þið vitið erum við á fordæmalausum tímum sem kalla á fordæmalausar aðgerðir, ekki aðeins hér á Íslandi heldur í heiminum öllum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fundinum. „Okkar leiðarljós í baráttunni við COVID-19, kórónuveiruna, hefur hingað til verið það að fylgja ráðum og leiðbeiningum okkar besta fólks, besta vísindafólks, besta heilbrigðisstarfsfólks og það munum við gera áfram.“
Sagði hún tillögu sóttvarnalæknis að samkomubanni marka tímamót. „Þetta er í fyrsta sinn í lýðveldissögunni sem slík ráðstöfun er lögð til. Markmiðið er hér eftir sem hingað til að hemja útbreiðslu veirunnar, koma í veg fyrir að faraldurinn gangi of hratt yfir, standa vörð um þá sem eru útsettastir fyrir þessari sýkingu og tryggja að heilbrigðiskerfið standist þetta álag. Þessi ráðstöfun byggir á ráðgjöf okkar framlínufólks í heilbrigðisvísindum en hún kallar líka á það að við stöndum öll undir þeirri ábyrgð sem hún leggur á okkar herðar.“
Rétti tíminn
„Ég held að tíminn til að gera það sé akkúrat núna,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir um samkomubannið. „Þetta er verkefnið okkar allra. Boð og bönn stjórnvalda mun ekki ráða úrslitum um hversu hratt veiran fer yfir landið. Það er undir okkur sjálfum komið, hverjum og einum, hvernig útkoman verður.“
Hann benti á að þó að tilfellum fjölgi dag frá degi sé það ennþá þannig að í langflestum tilfellum sé um að ræða Íslendinga sem hafa verið á ferðalagi erlendis og komið hingað til lands einkum frá skíðasvæðum í Ölpunum. Aðeins tvö tilfelli hafa greinst hjá fólki sem virðist ekki hafa tengsl við áhættusvæðin, beint eða í gegnum aðra.
Katrín Jakobsdóttir sagði að um fordæmalausar aðgerðir væri að ræða en að uppi væru fordæmalausir tímar. Ekki hafi fyrr verið gripið til aðgerða sem þessara í lýðveldissögunni.
„Við erum að gera nákvæmlega það sem við teljum þörf á á þessum tímapunkti,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra á fundinum.
Börn í litlum hópum
Hvað takmarkanir hjá leik- og grunnskólum varðar verður sú útfærsla unnin í samvinnu við Samband sveitarfélaga og Kennarasambandið. Nánari ákvörðun er í höndum hvers og eins sveitarfélags. Hafa skal börn í sem minnstum hópum og aðskilin eins og kostur er. „Okkar mat er að þetta sé eins langt og eigi að ganga á þessum tímapunkti,“ sagði Lilja.
Allt er þetta gert til að vernda viðkvæmustu hópa samfélagsins og til gæta þess að heilbrigðiskerfið standist álagið.
„Við erum auðvitað að gera þetta með okkar íslenska hætti,“ sagði Katrín. „Alveg frá því að fyrsti maður greindist hér höfum við lagt okkur fram við að miðla upplýsingum með reglubundnum hætti og hafa eins mikið gagnsæi um aðgerðir stjórnvalda og mögulegt er. Það hefur skilað árangri, við erum öll að taka ábyrgð á þeirri stöðu sem er uppi. [...] Ég heiti á okkur öll að láta þetta takast því það skiptir gríðarlegu máli fyrir almannaheill í þessu landi.“