Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hrósast Ölmu Möller landlækni, Þórólfi Guðnasyni sóttvarnarlækni og Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni hjá ríkislögreglustjóra, hástert í stöðuuppfærslu á Facebook.
Þar segir Kári að viðbrögðhérlendra stjórnvalda við veirufaraldrinum sem veldur COVID-19 sjúkdómnum hafi verið til fyrirmyndar og nákvæmlega eftir bókinni. „Alma og Þórólfur og Víðir hafa verið yfirveguð og ekki látið hávaða ýta sér út í aðgerðir sem vinna gegn því markmiði að hemja óværuna. Þau eru okkur til mikils sóma. Þau eru ekki bara flinkust heldur líka flottust og eru að leggja mikið að mörkum til þess að bjarga mannslífum.[...]Það eru forréttindi að hafa við stjórnvölinn í okkar aðgerðum fólk sem segir satt, er einlægt og leggst ekki svo lágt að reyna að plata. Ég tek ofan fyrir þessu fólki í auðmýkt.“
Kári gagnrýnir hins vegar harðlega aðgerðir Dana, sem hafa lokað landamærum sínum til að reyna að hemja útbreiðslu veirunnar, eftir að hún hefur samt sem áður breiðst víða út í landinu. „Er hugmyndin að loka veiruna inni? Varla, vegna þess að hún grasserar í öllum löndunum í kringum þá. Þeir eru einfaldlega að setja á svið leikþátt sem á að sannfæra fólkið í landinu um að þeir séu svo afgerandi og duglegir. Þeir ætla meira að segja að nota dáta til þess að verja landið gegn veiru sem er þegar komin þangað. “
Viðbrögð hérlendra stjórnvalda við faraldrinum hafa verið til fyrirmyndar og nákvæmlega eftir bókinni. Alma og Þórólfur...
Posted by Kari Stefansson on Saturday, March 14, 2020
Íslensk erfðagreining stendur sjálf í stórræðum vegna útbreiðslu veirunnar en fyrirtækið bauðst til þess að skima almenning eftir COVID-19 sjúkdómnum.
Skimanir hófust í Turninum, Smáratorgi 3 í Kópavogi klukkan 10 í gær. Fólki sem á bókaðan tíma er bent á að nota inngang á fyrstu hæð en þar verður fyrir starfsmaður sem tekur á móti þeim.
Í tilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu sem send var út í gær sagði að nýja kórónaveiran sem veldur sjúkdóminum COVID-19 dreifist nú hratt um heiminn og hefur sett venjubundið líf úr skorðum. Mikill meirihluti þeirra sem smitast verði ekki alvarlega veikir. Flestir sem komi í skimun hafi aldrei fundið fyrir einkennum og séu því líklega ekki smitandi. Það sama eigi við alla starfsmenn í húsinu, hvort sem þeir starfa við skimanir eða ekki. Það sé því ekki meiri hætta á ferðum í húsinu en annars staðar í borginni þar sem fólk kemur saman.