Alls höfðu 161 einstaklingur greinst smitaðir af veirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum í morgun. Allir einstaklingarnir eru í einangrun. Til viðbótar við þá sem greinst hafa með smit eru 1.512 í sóttkví. Þetta kemur fram á síðunni covid.is þar sem stjórnvöld birta reglulega uppfærðar tölur um stöðu mála þegar kemur að útbreiðslu yfirstandandi faraldurs.
Hvernig dreifast smit um landið?
Nánast allir sem hafa greinst eru á höfuðborgarsvæðinu, eða 151 af þeim 161 sem greindir hafa verið.
Það þýðir að tæplega 94 prósent greindra smita eru þar. Átta greind smit eru á Suðurlandi og einn hefur verið greindur á Suðurnesjum.
Þá er einn smitaður óstaðsettur. Það þýðir að enginn smit hafa greinst á Austurland, Norðurlandi eystra og vestra, Vesturlandi og Vestfjörðum. Fólk er hins vegar í sóttkví á öllum þessum stöðum.
Hvar eru þeir staðsettir sem eru í sóttkví?
Langflestir þeirra sem eru í sóttkví eru á höfuðborgarsvæðinu, eða 1.057 af þeim 1.512 sem eru í slíkri. Þeim sem eru í sóttkví fjölgaði umtalsvert á Suðurlandi í gær þegar á þriðja hundrað nemendur í Hveragerði í 1., 2., 4., 5., 6., 7. og 10. bekk voru settir í sóttkví eftir að starfsmaður í skóla þeirra greindist með veiruna.
Hvernig er aldursdreifing smita?
Einungis tveir einstaklingar á aldrinum núll til níu ára hafa greinst með kórónuveiruna, sem þýðir að 1,2 prósent greindra eru í þeim aldursflokki. Þá hafa einungis tíu smit greinst í aldurshópnum tíu til 19 ára.
Flestir sem hafa greinst eru á á aldursbilinu 40 til 49 ára (43) og 50 til 59 ára (34). Auk þess hafa 29 einstaklingar á sjötugsaldri greinst með veiruna en einungis þrír á áttræðisaldri og engin yfir áttrætt.
Hvar er fólk að smitast?
Framan af faraldrinum smituðust langflestir erlendis, aðallega í skíðaferðum á Ítalíu eða í Austurríki. Síðustu daga hefur fjöldi innanlandssmita, bæði annars stigs og þriðja stigs smita, aukist mikið og nú er svo komið að innanlandssmitin eru orðin 45 prósent af öllum smitum. Kynjahlutfall þeirra sem smitast er nokkuð svipað, 51 prósent þeirra eru karlar en 49 prósent konur.
Hvað er búið að taka mörg sýni?
Í morgun var búið að vinna úr 1.545 sýnum en búast má við að þeim fjölgi hratt næstu daga, í kjölfar þess að skimanir hófust á vegum Íslenskrar erfðagreiningar í Turninum, Smáratorgi 3 í Kópavogi, á föstudagsmorgun. Þúsundir landsmanna hafa bókað tíma í skimun eftir COVID-19 eftir að opnað var fyrir skráningar og reiknað er með að hægt sé að skima allt að þúsund manns á dag.
Hvernig er þróun smita?
Hún hefur verið upp og ofan milli daga frá því að fyrsta smit greindist 28. febrúar, en stígandi í fjölda þeirra líkt og búist var við. Flest smit á einum degi greindust 11. mars síðastliðinn, eða 24. Daginn eftir greindust níu færri, eða 15. Á föstudag greindust 19 manns og í gær 17 manns. Samanlagt hafa, líkt og áður sagði, 161 manns greinst.