Hópur sjálfboðaliða og Fjölskylduhjálp Íslands hafa tekið höndum saman til að koma matvælum og nauðsynjum til fjölskyldna og einstaklinga sem reiða sig á matarúthlutanir í hverjum mánuði, en vegna samkomubanns sem tekur gildi á morgun er ekki lengur hægt að viðhafa hefðbundnar leiðir til úthlutunar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjálfboðaliðahópnum.
Ákveðið hefur verið að setja af stað vinnu við skráningarsíðu, að fengnu leyfi frá Almannavörnum og með vitund embættis sóttvarnarlæknis. Þar verður hægt að senda inn beiðnir um úthlutun og á morgun verður opnað símaver þar sem hægt er að hringja inn í símanúmerið 551-3360. Símaverið verður mannað fólki sem talar íslensku, pólsku, spænsku og arabísku og er ætlað þeim sem ekki hafa aðgang að netinu, samkvæmt upplýsingum frá hópnum.
Gripið til allra nauðsynlegra varúðarráðstafana við afhendingu
Þá kemur fram í tilkynningu að allt að 500 heimili á höfuðborgarsvæðinu reiði sig á úthlutanir af þessu tagi og því komi samkomubannið afar illa við þetta fólk. Með því að sýna samstöðu og reiða sig á góðvild annarra hafi hins vegar tekist með samstilltu átaki að fá fjölda fólks, stofnana, fyrirtækja, samtaka og annarra til að sjá til þess að úthlutanir fari fram.
Farið verður í samvinnu við Slysavarnafélagið Landsbjörgu með úthlutanir til þeirra sem treysta á þær og mun það væntanlega hefjast um miðja viku. Gripið er til allra nauðsynlegra varúðarráðstafana við afhendingu í samræmi við opinber tilmæli og aðgerðir, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Átakið fengið gríðarlega góðar undirtektir
Steingrímur Sævarr Ólafsson, forsvarsmaður hópsins, segir í samtali við Kjarnann að átakið hafi fengið gríðarlega góðar móttökur og undirtektir.
Hann segir enn fremur að allir átti sig á að þessir viðkvæmu hópar – á borð við innflytjendur, aldraða, hælisleitendur og fleiri – þurfi á frekari aðstoð að halda.
Þegar Steingrímur er spurður út í það hvernig þetta verkefni hafi byrjað þá segir hann að gæðahjónin Rósa Bragadóttir og Ásgeir Ásgeirsson, sem ekkert aumt megi sjá, hafi fengið þessa hugmynd og fengið fólk sem hugsar á sömu nótum til að taka þátt í verkefninu.