Mestu máli skiptir á næstu mánuðum, við núverandi aðstæður í heimsmálunum, að viðskiptabankar og stjórnvöld geri sitt besta til þess að lífvænleg fyrirtæki í ferðaþjónustu og öðrum greinum sem verða fyrir áföllum geti haldið áfram rekstri þegar ástand verður eðlilegt aftur. Þetta segir Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, í grein í nýjustu Vísbendingu sem kom út í lok síðustu viku.
Gylfi segir að viðskiptabankarnir hérlendis hafi laust fé til þess að hjálpa fyrirtækjum með nægt eigið fé yfir hjallann og stjórnvöld geti frestað innheimtu skatta hjá þeim fyrirtækjum sem verst standa, fellt niður skatta eða lækkað þá og veitt niðurgreidd lán til þess að hjálpa þeim að ná sér á strik. „Vaxtalækkun Seðlabankans myndi fyrst og fremst hafa þau áhrif að létta á fjármagnskostnaði fyrirtækja og heimila á meðan á farsóttinni stendur og ýta aðeins undir nýfjárfestingar eftir að hún er gengin yfir.
Í kjölfar farsóttar geta stjórnvöld, ef þörf reynist á, síðan aukið opinberar fjárfestingar til þess að auka eftirspurn í hagkerfinu. Launafólki er mestur greiði gerður með því að vernda fyrirtækin frá þroti vegna þess að þá eykst atvinnuleysi minna. Þeir sem missa atvinnuna þrátt fyrir þessar aðgerðir njóta síðan atvinnuleysisbóta.“
Afleiðingar geta orðið miklar fyrir alþjóðlegt efnahagslíf
Í greininni, sem er ítarleg og fjallar heildrænt um efnahagsleg áhrif útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum á hagkerfi heimsins. Þar segir hann að nú þegar farsóttin herjar á öllum Vesturlöndum og nær að breiðast út geta afleiðingarnar orðið miklar fyrir hið alþjóðlega efnahagslíf.
Þegar farsótt geisar þá geta einnig orðið afleiðingar til lengri tíma. Augljósasta afleiðingin er sú að mörg fyrirtæki verði gjaldþrota vegna þess að viðskiptavinum fækkar tímabundið og starfsfólk er heima og þorir ekki að koma til vinnu.
Þá lækka tekjur, lausafjárstaðan versnar og slök afkoma getur valdið því að eigið fé verði upp urið áður en faraldurinn hefur runnið sitt skeið. Fyrirtækjaflóran verður þá fátækari þegar upp er staðið og í gjaldþroti fyrirtækjanna felst heldni – það að tímabundin farsótt hefur áhrif til lengri tíma á efnahagslífið. Þetta á sérstaklega við um þrot kerfislega mikilvægra fyrirtækja sem hefur síðan áhrif á rekstur annarra fyrirtækja. En áhrifin eru ekki einskorðuð við þau fyrirtæki sem fara í þrot. Þau fyrirtæki sem ekki verða gjaldþrota hafa minna eigið fé eftir en áður og eiginfjárskortur hefur áhrif á ákvarðanir stjórnenda. Vöxtur þeirra er þá minni fyrir vikið þegar eðlilegt ástand hefur náð að myndast.“
Þess vegna skipti mestu málið á næstu mánuðum að viðskiptabankar og stjórnvöld geri sitt besta til þess að lífvænleg fyrirtæki sem verði fyrir áföllum geti haldið áfram rekstri þegar ástand verður eðlilegt aftur. Það sé, líkt og áður sagði, hægt að gera með því að sjá fyrirtækjum með nægt eigið fé fyrir lausu fé auk þess sem stjórnvöld geta frestað innheimtu skatta hjá þeim fyrirtækjum sem verst standa, fellt niður skatta eða lækkað þá og veitt niðurgreidd lán til þess að hjálpa þeim að ná sér á strik.