Stjórn Íslandsbanka, sem er að öllu leyti í eigu ríkisins, hefur ákveðið, í ljósi óvissu af völdum fordæmalausra aðstæðna á fjármálamörkuðum, að greiða ekki út arð til hluthafa á árinu 2019. „Jafnframt verður lagt til við aðalfund að stjórn bankans fái heimild til að kalla til sérstaks hluthafafundar síðar á þessu ári þar sem tillaga um greiðslu arðs af hagnaði fyrri rekstrarára kann að vera lögð fram.“
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Íslandsbanki sendi Kauphöll Íslands í dag. Þar segir enn fremur að eiginfjárstaða bankans sé sterkt og með þessari ákvörðun sé bankinn „enn betur í stakk búinn að takast á við þær áskoranir sem framundan eru.“ Íslandsbanki ætlaði að greiða út 4,2 milljarða króna í arð í ár.
Bankaráð Landsbankans, sem er í 98 prósent eigu íslenska ríkisins, reið á vaðið á föstudag og tilkynnti að það myndi leggja til við aðalfund bankans að fresta arðgreiðslu. Upphaflega stóð til að greiða 9,45 milljarða króna út úr bankanum í arð.
Fréttablaðið greindi frá því að Arion banki hefði frestað boðaðri tíu milljarða króna arðgreiðslu til hluthafa að fjárhæð samtals tíu milljarðar króna um tvo mánuði. Í tilkynningu sem Arion banki sendi frá sér á föstudag kom fram að bankanum hafi borist skriflegar beiðnir frá hluthöfum, sem ráða yfir meira en þriðjungi hlutafjár, um frestun ákvörðunar á greiðslu arðs á aðalfundi en hann fer fram 17. mars næstkomandi.
Blaðið sagðist hafa heimildir fyrir því að frumkvæðið um að fresta arðgreiðslunni hefði komið frá bandaríska vogunarsjóðsins Taconic Capital, stærsta hluthafa Arion banka með rúmlega 23,5 prósenta hlut.