Evrópumóti karlalandsliða í fótbolta hefur verið frestað til ársins 2021, en þessi ákvörðun var tekin á krísufundi aðildarþjóða evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA, í dag. Til stóð að EM færi fram frá 11. júní til 11. júlí í sumar.
Þá hefur umspilsleik Íslands og Rúmeníu, sem fram átti að fara á Laugardalsvelli 26. mars, nú loks verið formlega frestað, samkvæmt frétt fótbolta.net. Ráðgert er að hægt verði að spila umspilsleikina í júní, en dagsetningarnar hafa ekki verið staðfestar.
Þessi frestun EM 2020 til ársins 2021 gæti gefið knattspyrnuhreyfingunni ráðrúm til þess að ljúka yfirstandandi tímabilum í sumar, að því gefnu að kórónuveirufaraldurinn verði liðinn hjá.
Frestunin mun einnig hafa keðjuverkandi áhrif og leiða til þess að EM 2021 í kvennaflokki verði frestað til ársins 2022.
Keppni hefur verið frestað tímabundið í öllum helstu fótboltadeildum Evrópu, eins og öðrum íþróttaviðburðum og fjöldasamkomum í flestum löndum álfunnar og óljóst er hvað verður, hvort hægt verði að krýna landsmeistara eða hvort keppnum verði slaufað án niðurstöðu.