Vakna, læra, taka úr vélinni, borða, skóli, ryksuga, læra, æfing, chill, sími, sofa.
Helena Einarsdóttir, nemandi í 9. bekk í Varmárskóla í Mosfellsbæ, ætlar ekki að slá slöku við þótt ýmislegt í hennar umhverfi hafi breyst vegna viðbragða við nýju kórónuveirunni. Hún hefur gert plan fyrir daginn þar sem hreyfing og lærdómur – auk heimilisstarfa – eru efst á blaði.
Líkt og hjá öllum landsmönnum hefur daglegt líf Helenu breyst töluvert síðustu daga. Hún fer aðeins í skólann í tvo tíma á dag og allar fimleikaæfingarnar hennar falla niður, að minnsta kosti þessa vikuna. Hún æfir og þjálfar fimleika hjá Aftureldingu en nú hefur verið ákveðið að loka íþróttahúsinu tímabundið.
Helena gerði dagsskipulagið á mánudag og í gærmorgun vaknaði hún klukkan 8, samkvæmt plani. Skólinn átti að hefjast klukkan 11 og hún gaf sér tíma til að ræða við Kjarnann áður en að því kom.
„Ég er ekkert sérstaklega mikið að pæla í þessari veiru,“ segir Helena sem lætur vera að lesa mikið af fréttum af ástandinu – hvað þá að googla upplýsingar um það. „En ég veit að veiran er hættuleg fyrir gamalt fólk og veikt fólk.“
Spurð hvaða áhrif veiran hafi haft á hennar daglega líf segist hún mun meðvitaðri en áður um hreinlæti og þvoi sér og spritti hendurnar oft á dag. Hún lætur ekki þar við sitja heldur sótthreinsar einnig símann og önnur tæki sem hún notar.
„Í skipulaginu mínu hef ég æfingu á hverjum degi því það er búið að taka æfingarnar af okkur,“ segir hún um hvað hún ætli að leggja áherslu á næstu daga. „Svo er miklu minni skóli núna þannig að ég þarf að gera verkefni heima. Svo setti ég inn heimilisstörf og svoleiðis líka svo maður hangi ekki í símanum allan daginn.“
Milli klukkan 20-22 á kvöldin ætlar hún þó að leyfa sér að fara í símann og jafnvel nokkrum sinnum yfir daginn ef verkefnin klárast fyrr en áætlunin gerir ráð fyrir.
En hver er ástæðan fyrir því að Helena setur upp svona nákvæmt skipulag?
„Mér líður miklu betur þegar ég er í rútínu. Mér finnst leiðinlegt að vakna og spyrja mig hvað ég eigi að gera í dag. Það er betra að plana eitthvað sem maður ætlar að gera yfir daginn. Mér líður miklu betur þannig.“
Vegna samkomubanns og takmarkana á skólahaldi verður Helena næstu vikur aðeins í skólanum í tvo tíma á hverjum degi. Hún á svo von á því að fá send heimaverkefni. Allir nemendur í Varmárskóla þurfa líka að fara eftir ákveðnum umgengnisreglum í skólanum. Þar er hreinlæti í fyrirrúmi. „Við þurfum alltaf að þrífa okkur um hendurnar og spritta þegar við komum inn í hverja stofu. Svo eru kennararnir búnir að sótthreinsa allar reiknivélar og annað. Við þurfum líka að fara inn um ákveðna innganga. Þetta eru sterkar aðgerðir.“
Á meðan engar íþróttaæfingar verða ætlar Helena að æfa heima á hverjum degi. Það ætti ekki að vefjast fyrir henni þar sem hún er sjálf þjálfari.
Ertu alveg staðráðin í að láta þetta allt saman ekki hafa áhrif á námið þitt og æfingar?
Hún segir að óhjákvæmilega muni einhver röskun verða á náminu en hún ætli sannarlega að reyna sitt besta. „Ég get ekki bara sleppt því að æfa í viku,“ svarar hún ákveðin. „Það hentar mér ekki að minnsta kosti. Persónulega finnst mér alltaf erfiðara að byrja aftur að æfa eftir frí. Þess vegna finnst mér þægilegt að halda rútínunni, hvort sem ég æfi heima eða í íþróttahúsinu.“
Fyrir þá sem vilja feta í fótspor Helenu er hér dagskipulagið hennar:
8.00: Vakna
9.00: Læra
10.15: Taka úr/setja í vélina
10.45: Borða
10.55: Skóli
13.45: Komin heim
14.00: Ryksuga
14.30: Borða
15.00: Læra
17.00: Æfing
18.00: Chill
19.00: Borða
20.00: Sími
22.00: Sofa