Stjórnvöld biðla til Íslendinga erlendis, sem tvö af fjórum eftirfarandi atriðum eiga við, að íhuga heimferð til Íslands. Atriðin þrjú eru að vera yfir 60 ára gamall, vera með undirliggjandi sjúkdóm, vera fjarri vinum og fjölskyldu eða eiga ekki rétt á heilbrigðisþjónustu í landinu þar sem viðkomandi dvelst eða heilbrigðiskerfið þar annar ekki álaginu.
Hvatningunni er beint sérstaklega til Íslendinga sem annað hvort eru á ferðalagi erlendis eða dveljast þar tímabundið og eiga rétt á heilbrigðisþjónustu á Íslandi.
Í tilkynningu á vef utanríkisráðuneytisins segir að sérstök athygli sé vakin á því að fólk sem sýnir sjúkdómseinkenni gæti átt á hættu að vera synjað um innritun í flug og því er óráðlegt að bíða of lengi. „Sóttvarnalæknir hefur meðal annars skilgreint Spán sem svæði með mikla smitáhættu og búast má við að álag verði talsvert á heilbrigðiskerfið þar í landi. Íslendingar sem koma frá Spáni skulu fara í sóttkví í fjórtán daga eftir heimkomu. Þetta tekur til allra hluta Spánar, þ.m.t. Kanaríeyja (Gran Canaria ,Tenerife og aðrar eyjar).“
Verið að sækja Íslendinga til Tenerife og Kanarí
Þetta er önnur formlega hvatningin sem íslensk stjórnvöld senda til Íslendinga sem eru á ferðalagi erlendis til að flýta heimför. Sú fyrri, sem var almenn og ekki beint að ákveðnum hópum var send á laugardag. Í henni var haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra að víða ættu Íslendingar á hættu að verða innlyksa eða lenda í sóttkví við erfiðar aðstæður. „Ekki er víst hvaða aðgang og réttindi Íslendingar munu hafa að heilbrigðisþjónustu auk þess sem heilbrigðiskerfi í mörgum ríkjum anna ekki álagi[...]Í því ljósi höfum við ákveðið að ráða Íslendingum gegn ferðalögum erlendis og þeim sem eru á ferðalagi erlendis að íhuga að snúa heim fyrr en ella.“
Á ferðaþjónustufréttavefnum Túrista er greint frá því að ferðaskrifstofan Úrval-Útsýn sé að senda þrjár þotur til Spánar í dag þriðjudag til að sækja farþega sem eiga pantaða heimferð til Íslands á næstu dögum. Tvær þotur fara til Tenerife og ein til Las Palmas á Kanarí.
Þar er haft eftir Þórunni Reynisdóttur, forstjóra Úrval-Útsýn, að farið heim kosti þá sem eiga bókað far með Úrval-Útsýn ekki neitt aukalega. Sama gildi um farþega systurfyrirtækja ferðaskrifstofunnar, Plúsferða og Sumarferða.
Mögulega verða þó laus sæti fyrir fleiri farþega frá Tenerife og þau verða þá til seld á heimasíðu Úrval-Útsýn.