Óvissa er eitthvað sem flestum þykir óþægilegt fyrirbæri. Nú á tímum nýju kórónuveirunnar er fólk með áhyggjur af mismunandi hlutum. Sumir hafa mestar áhyggjur af heilsu, fjármálum, skipulagi á heimilinu, ættingjum, ferðalögum eða fyrirtækjunum sínum. „En ég held að óvissan sé stórt yfirheiti yfir alla þessa þætti, við vitum ekki hvað gerist, hverjar afleiðingarnar verða og hversu lengi þetta mun vara,“ segir Hulda Jónsdóttir, sálfræðingur hjá Kvíðameðferðarstöðinni í samtali við Kjarnann.
Miklu fleiri spurningar vakni en til eru svör við. „Ég hef talað um það við fólk, áður en [kórónuveiran] kom til sögunnar, að við verðum að passa okkur þegar við erum farin að velta okkur upp úr spurningum sem eru engin svör við því það er óþægilegur staður að vera á.“
Flestir hafa áhyggjur þessa dagana en sumir eru viðkvæmari fyrir óvissunni en aðrir og þar með útsettari fyrir því að fá kvíða. Fólk sem sé gjarnt að hafa áhyggjur, er jafnvel með undirliggjandi kvíða og veltir stöðugt fyrir sér öllu því versta, er í mestri hættu á vanlíðan.
En hver eru helstu einkenni kvíða, bæði andleg og líkamleg?
„Í mínu starfi finnst mér gott að tala um kvíða sem tilfinningu,“ segir Hulda. „Kvíði er bara tilfinning. Og það sem gerist í rauninni í líkamanum okkar þegar við skynjum einhverja hættu eða ógn þá fer kvíðaviðbragðið af stað. Hvort sem að það er hætta sem er raunverulega til staðar eða að við erum að hugsa um eitthvað sem gæti ógnað okkur.“
Kvíði er varnarviðbragð líkamans og ekki alslæmur. „Hóflegur kvíði getur verið hjálplegur fyrir okkur til þess að koma okkur af stað, læra fyrir próf, keppa í íþróttum, takast á við einhverjar áskoranir, en þegar hann verður of mikill getur hann farið að vinna gegn okkur. Þegar varnarviðbragðið fer af stað og við finnum fyrir kvíða þá koma þessi einkenni sem að allir þekkja; hraður hjartsláttur, vöðvaspenna, skjálfti, ónot í maganum, doði.“
Við þetta getum við misst einbeitingu, orðið eirðarlaus og „sitjum kannski illa í okkur sjálfum akkúrat á meðan þetta er að eiga sér stað“.
Hulda segir gott að aðskilja hugsanir, áhyggjur og kvíða. Þetta geti haldist í hendur og haft áhrif hvert á annað. Ef við hugsum eitthvað, fáum áhyggjur og þá fer kvíðinn að malla.
Spurð um hvað sé til ráða til að ná tökum á kvíða svarar Hulda að við þurfum ekki að hræðast kvíðann sjálfan. „Hann er í rauninni bara tilfinning, hann er vissulega óþægileg tilfinning. En þegar kvíðinn kemur yfir okkur þurfum við ekki að hlaupa í skjól heldur staldra við og hugsa: Já ok, nú er ég kvíðin og það er óþægilegt, en hvað ætlaði ég að gera þrátt fyrir kvíðann? Hugsa þetta svolítið þannig að við viljum ekki leyfa kvíðanum að stýra deginum okkar. Að bera frekar kennsl á að núna séum við kvíðin og það er nú ekki gott, en hvert var planið, óháð kvíðanum? Þá fer ég bara með hraðan hjartslátt og illt í maganum út í göngutúr, hringi í einhvern eða les bók. Af því að kvíði er líka þannig, eins og allar tilfinningar, þær líða hjá.“
Mikilvægt sé að muna að tilfinningarnar eiga okkur ekki, við eigum þær. „Ég tala oft um þær eins og veðrið. Þær koma, það er kannski glatað, það er rigning, stormur og rauð viðvörun en hún mun ekki vara að eilífu.“
Nú þegar daglegt líf margra hefur raskast verulega vegna faraldursins bendir Hulda á að gott sé að hliðra hlutum til frekar en að sleppa þeim alveg. Ef fólk er vant því að fara í ræktina er gott að upphugsa nýjar leiðir til að næra líkama og sál. Fara í gönguferð, gera jóga heima í stofu.
Þannig að fólk þarf kannski að nota svolítið hugmyndaflugið?
„Já, ég held að þetta sé kannski svolítið tækifæri til þess. Hvað finnst mér gaman og kannski hvað fannst mér gaman áður en hef ekki gefið mér tíma í? Í hverju gleymdi ég mér og var eitthvað sem mig langaði að lesa mér til um eða skoða betur, púsla eða hvað sem er. Núna kannski fáum við smá svigrúm til að sinna einhverju sem hefur setið á hakanum, einhverju sem okkur finnst áhugavert.“
Hvað geta aðstandendur gert til að hjálpa fólki með mikinn kvíða?
„Við getum alveg sýnt kvíðanum og áhyggjunum skilning, hlustað og verið til staðar. En við viljum samt ekki detta í áhyggjupottinn með fólkinu okkar. Því það í rauninni breytir ekki ástandinu og getur gert það verra ef við erum svamlandi um þar. Það er fínt að sýna stuðning og skilning en það er svo margt sem við getum ekki gert í þessu ástandi. Við getum ekki smellt fingrum og lagað þetta. En hugsum, hvað gætum við gert? Er kannski eitthvað sem við gætum gert saman? Eigum við kannski að tala um eitthvað allt annað eða gera eitthvað annað? Fókusera á hvað við getum gert frekar en það sem við getum ekki gert.“
Á þriðja þúsund landsmanna eru í sóttkví á heimilum sínum um þessar mundir. Að sögn Huldu er mikilvægt að þessi hópur hugi að grunnstoðunum þremur: Svefni, hreyfingu og næringu. Einnig sé mikilvægt að rækta félagsleg samskipti að því gefnu að þau samræmist öllum leiðbeiningum landlæknis. „En að er mikilvægt að við höldum okkar striki og beygjum ekki of mikið af leið. Sérstaklega að íhuga hvað fannst mér gaman að gera, hverju hef ég áhuga á. Það er svo margt í boði í gegnum internetið, alls konar fræðsla og skemmtilegt sem er hægt að skoða. Mér skilst að fólk í sóttkví megi fara út þannig að vera í náttúrunni ef það er hægt, það hefur sýnt sig að það hefur góð áhrif á geðheilsu.“
Hulda brýnir fyrir fólki sem finnur fyrir áhyggjum og kvíða að passa sig á að vera ekki stöðugt að endurhlaða fréttasíðurnar allan daginn og lesa um COVID-19. Þetta sé mikilvægt „vegna þess að ef við hegðum okkur eins og það sé stór hætta aðsteðjandi hverja einustu mínútu þá fer heilinn að ræsa varnarviðbragðið miklu oftar. Og í rauninni getum við sent heilanum þau skilaboð að það sé enn meiri hætta fyrir hendi en er raunverulega til staðar.“ Hún segist mæla með því að fólk skoði fréttir jafnoft og það gerði áður en faraldurinn kom upp.
Oft talað um að það sé gott fyrir geðheilsuna að hitta vini og ættingja og faðmast. Nú má það ekki. Það getur reynst mörgum erfitt. „Við megum alveg muna að við höfum orðin okkar,“ bendir Hulda á. „Og að við getum líka skrifað, átt samskipti í gegnum tölvu og síma.“
Facetime og Messenger séu til dæmis ágæt forrit til að nota til að eiga í samskiptum, jafnvel í mynd. „Leyfa börnunum að tala við ömmu og afa, frænku og frænda. Það er alveg hægt að viðhalda og styrkja samskipti og sambönd með þessum hætti. Og við vitum að þetta er tímabundið. Við vitum að þetta verður ekki svona alltaf og það verður spennandi þegar við fáum að knúsast næst. Við verðum kannski bara ennþá þakklátari fyrir það að geta sýnt ást og kærlega með þeim hætti.“
Þá segir Hulda nauðsynlegt að ræða eitthvað annað en COVID-19 og allt sem því fylgi. Lífið snúist um svo miklu fleira. „Þannig að við skulum leyfa okkur líka að líta glaðan dag, að muna að við erum til og megum hlæja, njóta þess að borða góðan mat, fara í gott bað. Við getum gert alls konar hluti en við megum ekki missa okkur í hluti um af hverju er þetta svona og af hverju má ég ekki þetta og má ekki hitt. Heldur spyrja sig frekar: Hvað má ég? Hvað get ég?“
Hún segir áhugavert að muna að öll heimsbyggðin sé að ganga í gegnum svipaða reynslu vegna veirufaraldursins. „Mér hefur þótt það ótrúlega fallegt að sjá þessa samstöðu. Hvað fólk einhvern veginn virðist vera að taka ábyrgð, ekki endilega fyrir sjálft sig heldur fyrir heildina og þá sem eru langveikir og aðra viðkvæma hópa. Fólk er að taka höndum saman og það getur líka styrkt okkur og við getum búið að því síðar meir.“