„Það óraði engan fyrir því hvað þetta verkefni yrði stórt,“ segir Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður smitrakningateymis almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknis. Hlutverk hans er að sameina krafta, reynslu og þekkingu ólíkra hópa en lögregla- og heilbrigðisyfirvöld vinna í sameiningu að smitrakningu hér landi vegna COVID-19. „Lögreglan hefur reynslu af því að hafa uppi á fólki, rekja ferðir þeirra og finna tengsl. Heilbrigðisstarfsfólk hefur reynslu og þekkingu á því að draga fram upplýsingar og að tala við fólk en þetta snýst náttúrlega fyrst og fremst um samskipti.“
Ævar lýsti því á upplýsingafundi almannavarna í dag að hlutirnir hafi gerst hratt eftir að ákveðið var að setja teymið saman. Aðeins hafi liðið tveir tímar frá því að hann fékk að vita að hann væri í teyminu að þar til það var kallað út í fyrsta sinn.
Í teyminu eru nú sextán heilbrigðisstarfsmenn og 22 frá lögreglunni. Von er á fleira fólki inn í teymið. „Þetta hefur vaxið gríðarlega hratt og vex á hverjum degi,“ sagði Ævar. „Þetta hefur allt tekið breytingum, oft á dag jafnvel. Við erum alltaf að reyna að þróa og bæta verklagið.“
Ævar sagðist vera spurður að því á hverjum degi hversu lengi teymið muni starfa. „Ég hef ekki hugmynd um það. Við sjáum ekki fyrir endann á þessu eins og er. Þetta er gríðarleg áskorun, sennilega ein sú stærsta sem ég hef tekist á við. En jafnframt eru það forréttindi að fá að vinna með fólkinu í teyminu. Það er alveg dásamlegt að fylgjast með samvinnunni. Þetta eru ólíkir hópar sem dragast að og fara að vinna saman.“
Hann sagði að teymið hefði rekist á margar hindranir við störf sín, „en við höfum yfirstigið þær allar eða farið fram hjá þeim“.
Smitrakningarteymið á í góðri samvinnu við marga aðila úti í samfélaginu og hrósaði hann sérstaklega Icelandair og Airport Associates í því sambandi. „En með hagsmuni fólks að leiðarljósi verðum við að ná sem fyrst til þess.“
Smitrakningarteymið hefur meðal annars það hlutverk að hringja í fólk sem hefur mögulega átt náið samneyti við smitaða einstaklinga. Er fólki í því samtali tilkynnt að það þurfi að fara í sóttkví. Ævar segir að það komi fólki ekki lengur á óvart að fá símtöl frá teyminu líkt og það gerði í fyrstu vikunni. Í þessum símtölum er sagt: Þú hefur verið í nánu sambandi við einhvern sem er smitaður, ert þar af leiðandi útsettur fyrir smiti og þarft að fara í sóttkví. „Núna um helgina kom fólki þetta minna á óvart og átti jafnvel von á þessu símtali,“ sagði Ævar.
Hann sagðist virkilega stoltur af fólkinu í teyminu, „þetta er fólk sem henti öllum öðrum verkefnum frá sér. Flestir voru í dagvinnu en þurftu að breyta um vinnuumhverfi og vinnutíma og er nú komið í vaktavinnu. Þess vegna lenda hefðbundin verkefni þeirra á vinnufélögum og fjölskyldum“.