Miklar líkur eru á því að ástralski ferðamaðurinn sem lést á
heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík hafi látist úr COVID-19, sjúkdómnum
sem nýja kórónuveiran veldur.
Þetta sagði Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. Maðurinn var krufinn í gær og endanleg skýrsla liggur ekki fyrir. Alma sagðist þó hafa fengið heimild til þess hjá aðstandendum að segja frá því að ljós hafi komið lungnabólga og því sennilegt að hann hafi látist úr COVID-19. „Hugur okkar er hjá aðstandendunum og þau vilja koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem rétt hafa fram hjálparhönd.“
Ferðamaðurinn var innan við fertugt. Alma segir að einkennin sem hann fann fyrir dagana áður en hann dó séu ódæmigerð fyrir lungnabólgu. „Við erum enn að kynnast þessum sjúkdómi og margt á enn eftir að koma í ljós.“
Langflestir þeir sem veikjast alvarlega eru aldraðir þó að dæmi séu um að ungt fólk hafi veikst mikið.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði frá því á fundinum að sjö sjúklingar væru nú á Landspítalanum vegna COVID-19. Einn er á gjörgæslu en hann er ekki í öndunarvél.
330 hafa greinst með veiruna hér á landi. Um 3.700 eru í sóttkví.