„Ég er á því að við séum að lifa svo fordæmlausa tíma að við þurfum að leggja fram svo stórar og fordæmalitlar aðgerðir og þá sé eðlilegast og skynsamlegast að þær séu unnar í sem víðtækastri sátt stjórnar og stjórnarandstöðu, líkt og gert var í Danmörku og Noregi.“
Þetta segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, um þá stöðu sem er uppi á þinginu.
Hann segir stjórnarandstöðuna ítrekað hafa kallað eftir því að fá að koma að borðinu varðandi undirbúning á þeim risapakka sem sé í farvatninu og séu tilbúin að koma að þeirri vinnu, en að það hafi hingað til verið afþakkað. „Það er ekki um krísu að ræða sem stafar af verkum ríkisstjórnarinnar, heldur af utanaðkomandi vá og það hafa allir skilning á því að það þurfi að bjóða upp á mjög stórar og sterkar lausnir, sem hafa ekki sést áður.“Logi segir að hlutverk stjórnarandstöðunnar í því ferli sem nú er til staðar hafi aðallega verið að taka við málum sem ríkisstjórnin komi með inn í þingið, sem tengjast aðgerðum vegna ástandsins. Þar er meðal annars um að ræða frumvarp um hlutalaun og laun til þeirra sem eru í sóttkví. Stjórnarandstaðan hafi mætt því að vilja og unnið málin í samstarfi við ríkisstjórnina.
Fá upplýsingar um „risapakkann“ á morgun eða um helgina
Nú sé hins vegar ljóst að málin muni taka breytingum og tilkynnt hefur verið að þau muni koma breytt til þingsins seinni partinn í dag. Upphaflegt umfang þeirra hafi einfaldlega verið of lítið og auka þurfi áhrif þeirra umtalsvert. „Við teljum það hins vegar sorglegt að freista þess ekki að standa saman á þessum mjög krítísku og erfiðu tímum. Auðvitað þarf atvinnulífið og launþegahreyfingin svo að taka þátt í því samstarfi líka.“
Miðflokkurinn segist muna styðja stjórnvöld
Miðflokkurinn sendi fyrr í dag frá sér tilkynningu þar sem hann sagði að vandinn sem þjóðir heims standi nú frammi fyrir og sú þróun sem virðist vera fram undan kalli á umfangsmeiri aðgerðir ríkisins en nokkur dæmi eru um í seinni tíma sögu. Því fyrr sem gripið verði til aðgerða þeim mun meiri áhrif muni þær hafa. „Við munum styðja stjórnvöld í öllum þeim aðgerðum sem eru til þess fallnar að ná stjórn á ástandinu sem nú ríkir og bregðast við með það að markmiði að verja íslenskt samfélag, fyrirtæki og heimili.“
Með fylgdu aðgerðir sem Miðflokkurinn vildi að gripið yrði til, bæði í efnahags- og heilbrigðismálum, og hægt er að lesa um hér.
Katrín boðaði frekari aðgerðir
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra staðfesti í Kastljósi á þriðjudag að frekari efnahagsaðgerðir væru í undirbúningi, en Kjarninn greindi frá því í á mánudag að slíkar yrðu væntanlega kynntar í vikunni.
Heimildir Kjarnans herma að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hafi boðað það á fundi með þingflokksformönnum í gær að svokallaður bandormur frá Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, væri væntanlegur í lok viku inn á þingið. Slíkur bandormur er samansafn breytinga á ýmsum lögum og viðmælendur Kjarnans eru sammála um að hann verði lagður fram eftir að aðgerðarpakki ríkisstjórnarinnar verður kynntur. Því sé líklegt að það styttist í kynningu á honum.
Katrín sagði í þættinum að stjórnvöld þyrfti að gera fernt með aðgerðum sínum. „Stóru markmiðin í þeim eru í fyrsta lagi að tryggja lífsafkomu fólks. Alþingi var í dag að ræða frumvarp um hlutabætur, það mun taka breytingum.[...]Við erum að tryggja að lífsafkoma fólks sé tryggð og að það geti haldið ráðningarsambandinu við sinn vinnuveitanda.
Við þurfum að ráðast í aðgerðir til þess að styðja við fyrirtækin vegna þess að þau auðvitað halda uppi atvinnulífinu í þessu landi. Þar vinnur allt fólkið í landinu. Við þurfum sömuleiðis að verja grunnstoðir atvinnulífsins.[...]Í fjórða lagi þurfum við að gefa í í fjárfestingu til að tryggja að hagkerfið nái ákveðinni viðspyrnu.“