Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, boða til blaðamannafundar í Norðurljósum í Hörpu á morgun, laugardaginn 21. mars, klukkan 13:00.
Fundinum verður streymt á vefsíðu Stjórnarráðsins og hann verður táknmálstúlkaður.
Fastlega er búist við því að á fundinum verði kynnt um frekari aðgerðir til að takast á við þær efnahagslegu afleiðingar sem blasa við að munu verða hérlendis vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.
Beðið hefur verið eftir því að ríkisstjórnin kynnti risapakka aðgerða til að takast á við stöðuna, líkt og mörg önnur ríki heims hafa þegar gert. Upphaflega var búist við því að hann yrði á miðvikudag eða fimmtudag, en af því varð ekki. Stjórnarandstaðan hefur kvartað undan því að vera ekki hleypt að borðinu og fá að leggja sínar hugmyndir í púkkið. Þorri vinnunnar sem fram hefur farið hefur, samkvæmt upplýsingum Kjarnans, farið fram í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og hefur uppleggi hennar verið haldið leyndu utan mjög þröngs hóps ráðherra og helstu ráðgjafa þeirra.
Þurfa að bregðast við vegna tekjufallsins
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra staðfesti í Kastljósi á þriðjudag að frekari efnahagsaðgerðir væru í undirbúningi, en Kjarninn greindi frá því í á mánudag að slíkar yrðu væntanlega kynntar í vikunni.
Katrín sagði í þættinum að stjórnvöld þyrfti að gera fernt með aðgerðum sínum. „Stóru markmiðin í þeim eru í fyrsta lagi að tryggja lífsafkomu fólks. Alþingi var í dag að ræða frumvarp um hlutabætur, það mun taka breytingum.[...]Við erum að tryggja að lífsafkoma fólks sé tryggð og að það geti haldið ráðningarsambandinu við sinn vinnuveitanda.
Við þurfum að ráðast í aðgerðir til þess að styðja við fyrirtækin vegna þess að þau auðvitað halda uppi atvinnulífinu í þessu landi. Þar vinnur allt fólkið í landinu. Við þurfum sömuleiðis að verja grunnstoðir atvinnulífsins.[...]Í fjórða lagi þurfum við að gefa í í fjárfestingu til að tryggja að hagkerfið nái ákveðinni viðspyrnu.“
Bjarni Benediktsson sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun að þau í ríkisstjórninni hefðu þurft að vinna dag og nótt undanfarnar tvær vikur til þess að fylgjast með þróuninni frá degi til dags og leggja mat á raunhæfar aðgerðir til að bregðast við afleiðingum COVID-19 faraldursins. „Það eru nokkrir hlutir sem standa upp úr. Það er gríðarlegt tekjufall í einkageiranum, sem auðvitað mun brjótast fram í tekjufalli hjá ríkinu og hinu opinbera sömuleiðis.“
Fjármagn til að brúa tímabilið
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði Bjarna hvort hann teldi ekki æskilegt að allir flokkar á Alþingi ynnu nánar en nú væri gert að vinnu við stóra aðgerðapakkann eða sæi hann einhverja augljósa vankanta eða hindranir á því.
Bjarni svaraði og sagði að hann sæi þetta í grófum dráttum þannig að þær aðgerðir sem stjórnvöld myndu kynna – sem ríkisstjórnin myndi jafnframt vilja leggja fyrir þingið – væru í öllum meginatriðum nokkuð fyrirsjáanlegar. „Það er að segja; við þurfum að bregðast við vegna tekjufallsins, við þurfum að huga að atvinnuöryggi fólks, við þurfum að huga að því að þegar fyrirtæki tapa lausu fé þá þarf að vera til eitthvað fjármagn til þess að brúa tímabilið sem við vonumst til að verði sem styst.“