Boeing hefur ákveðið að forstjóri fyrirtækisins og stjórnarformaður þess fái engar launagreiðslur það sem eftir lifir ársins. Þá hefur einnig verið ákveðið að að fresta arðgreiðslum fyrirtækisins og hætta endurkaupum á eigin bréfum.
Þetta eru meðal aðgerða sem stjórn fyrirtækisins hefur ákveðið að grípa til vegna áhrifa COVID-19 faraldursins.
David Calhoun og Larry Kellner voru ráðnir forstjóri og stjórnarformaður Boeing í desember á síðasta ári í kjölfar fárviðrisins sem skapaðist vegna 737 MAX-véla fyrirtækisins. Til stóð að Calhoun fengi 1,4 milljónir Bandaríkjadala, tæplega 200 milljónir íslenskra króna, í árslaun og átti auk þess að fá ríkulegar bónusgreiðslur tengdar frammistöðu fyrirtækisins. Kellner átti að fá 250 þúsund dali árlega í þóknun, eða um 35 milljónir íslenskra króna.
Í tilkynningu frá Boeing segir að gripið verði til allra mögulega ráðstafana til að halda fyrirtækinu í rekstri í gegnum þær efnahagsþrengingar sem standi fyrir dyrum. Stjórnin heitir því einnig að styðja við alla starfsmenn og viðskiptavini.
Stjórnin greip til þessara aðgerða eftir að Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði af sér stjórnarsetu í fyrirtækinu. Tók hún þá ákvörðun til að mótmæla þeim hugmyndum annarra stjórnarmanna að biðja um 60 milljarða dala, um 140 milljarða króna, ríkisaðstoð.
Fyrr í vikunni sagði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, að það yrði að „vernda Boeing“ en gagnrýndi í sömu mund endurkaup á eigin bréfum, þ.e. þann gjörning þegar fyrirtæki kaupa bréf af hluthöfum, greiða fyrir í reiðufé og hækka þannig virði eftirstandandi bréfa.