Ef spurt væri, hvað dettur þér í hug þegar þú heyrir orðið Álaborg myndu líklega flestir nefna Ákavíti. Saga Álaborgar Ákavítisins á sér langa sögu, heitir reyndar Taffel Akvavit, en gengur í daglegu tali undir nafninu Rød Aalborg. Þessi vinsæli snafs var fyrst framleiddur árið 1846 og uppskriftin er enn sú sama. Og kannski ekki að ástæðulausu. Í vínkeppnum hefur „sá rauði“ (sem er glær, þrátt fyrir nafnið) nefnilega margoft verið valinn besta ákavíti í heimi.
En það er fleira sem ættað er frá Álaborg og nágrenni en „sá rauði“. Árið 1889 komu fjórir menn saman á búgarðinum Rørdal fyrir austan Álaborg og stofnuðu fyrirtæki. Tæpast hafa þeir rennt grun í að þetta fyrirtæki, sem fékk nafnið Aalborg Portland-Cement-Fabrik, yrði með tíð og tíma stórfyrirtæki, þekkt um víða veröld. Eins og nafnið gefur til kynna var ætlun fjórmenninganna að framleiða sement.
Sementið var ekki uppfinning fjórmenninganna. Saga þess er í raun árþúsunda gömul og verður ekki rakin hér en segja má að sementið eins og við þekkjum það í dag sé afrakstur ótal tilrauna og aðferða í fjölmörgum löndum. Orðið sement (cement) er komið úr latínu en það mun hafa verið breski múrarinn Joseph Aspdin sem fyrstur notaði orðið Portland í þessu samhengi, árið 1824. Þá sótti hann um einkaleyfi á sementsblöndu með þessu nafni. Liturinn á sementsblöndunni minnti hann á kalksteininn á eyjunni Portland á Suður-Englandi. Til eru margar gerðir af sementi en sú sem nefnd er Portland sement er lang algengust. Steinsteypan, eins og við þekkjum hana verður æ algengara byggingaefni á 19. öld og sú steinsteypuöld stendur enn. Danirnir sem stofnuðu Aalborg Portland-Cement-fabrik fundu, eins og áður var nefnt, ekki upp „sementshjólið“ en þeir gripu tækifærið og veðjuðu sannarlega á réttan hest.
Staðarvalið og græjurnar
Ástæða þess að fjórmenningarnir völdu Rørdal við Álaborg fyrir verksmiðjuna var ekki tilviljun. Á þessu svæði var, og er enn, auðveldur aðgangur að þeim jarðefnum sem notuð eru við sementsframleiðsluna og staðsetningin við Limafjörðinn (Limfjorden var ákjósanleg varðandi flutninga á sementinu. Þeir félagar hugsuðu stórt, þeir fylgdust grannt með tækninýjungum og fundu sjálfir upp margt sem viðkom framleiðslunni.
Í upphafi voru brennsluofnarnir sem notaðir voru við framleiðsluna tíu talsins, þeir voru eigin hönnun verksmiðjueigendanna. Árið 1909 voru settir upp í verksmiðjunni fjórir svonefndir snúningsofnar. Þeir voru uppfinning Edisons (1885). Snúningsofnar komu í stað tíu ofna sem fyrir voru en afkastageta nýju ofnanna var margfalt meiri en þeirra gömlu. Ársframleiðslan jókst úr 55 þúsund tonnum í 115 þúsund tonn. Snúningsofnar eru enn notaðir við framleiðsluna.
Þeir eru engin smásmíði, lengsti ofninn er 180 metra langur og í honum er hægt að brenna 5 þúsund tonn af jarðefnum á hverjum degi, hitinn í ofnunum nær 15 hundruð gráðum. Ótal tækninýjungar hafa litið dagsins ljós á þeim 130 árum sem liðin eru frá stofnun fyrirtækisins. Nefna má að árið 1990 var tekin í notkun fjarvarmaveita sem nýtir hita frá framleiðslunni, hún gat séð 15 þúsund íbúðum í Álaborg fyrir upphitun. Fjarvarmaveitan var síðar stækkuð og nú hitar hún ofnana í 35 þúsund íbúðum.
Árleg framleiðsla sementsverksmiðjunnar í Rørdal nemur nú rúmlega 2,3 milljónum tonna. Þótt starfsemi Aalborg Portland A/S (eins og fyrirtækið heitir nú) hafi breyst mikið á þeim rúmlega 130 árum sem liðin eru frá stofnun fyrirtækisins eru höfuðstöðvarnar enn á sama stað í Rørdal. Tæknin hefur gert að verkum að starfsfólk er mun færra en áður var. Starfsmenn í Rørdal eru um 300 en samtals vinna 700 manns hjá fyrirtækinu, í Danmörku. Aalborg Portland A/S er auk þess með starfsemi í mörgum öðrum löndum en það er önnur saga.
175 þúsund störf í húfi
Yfirstjórn Aalborg Portland A/S hefur gripið til mikilla ráðstafana í verksmiðjunni í Rørdal vegna COVID-19. Verksmiðjunni hefur verið skipt upp í tvö algjörlega aðskilin vinnusvæði og mjög strangar reglur gilda varðandi stjórnstöðina, sem Michael Lundgaard Thomsen forstjóri kallar „ the war room“. Í stjórnstöðinni vinna hverju sinni aðeins þrír menn en þaðan er allri framleiðslunni stjórnað. Og það er mikið í húfi. Forstjórinn sagði í viðtali við dagblaðið Politiken að ef framleiðslan myndi raskast, eða stöðvast um tíma, myndi fyrirtækið lifa af. En öðru máli gegnir um byggingaiðnaðinn.
„Ef steypuframleiðslan stöðvast hér hjá okkur fer allur byggingaiðnaðurinn í Danmörku á hliðina tveimur dögum síðar. Þetta sýnir hvað þessi atvinnugrein er viðkvæm og má við litlu,“ sagði forstjórinn. Og samkvæmt upplýsingum sem Politiken aflaði sér er um að ræða 175 þúsund störf, og enn sem komið er mæta tugþúsundir (orðalag Politiken) til vinnu á hverjum degi, ólíkt því sem gildir um margar, ef ekki flestar, aðrar atvinnugreinar. „Ábyrgð okkar er mikil og við munum gera allt til að rísa undir henni.“
Michael H. Nielsen framkvæmdastjóri Samtaka danska byggingaiðnaðarins, Dansk Byggeri, tekur undir með forstjóra Aalborg Portland A/S og segir mjög mikilvægt að byggingafyrirtækin haldi sínu striki. „Og það er ekkert launungarmál að Aalborg Portland A/S skiptir höfuðmáli í þessu tilliti. Auðvitað er margt annað mikilvægt í þessu tilliti,“ sagði framkvæmdastjórinn, „við höfum samið við Samband sveitarfélaga um að hægt verði að losna við byggingaúrgang á endurvinnslustöðvar og eigum í viðræðum við samtök byggingavöruverslana um að tryggja að ekki verði skortur á vörum. En af einstökum fyrirtækjum er Aalborg Portland A/S lang mikilvægast, því ef eitthvað fer úrskeiðis þar eigum við engra kosta völ og byggingaiðnaðurinn mun stöðvast. Það má ekki gerast,“ sagði framkvæmdastjóri Dansk Byggeri.