„Ég ætla að byrja að tala til ykkar allra sem eruð á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum eða öðrum stofnunum þar sem heimsóknir eru takmarkaðar,“ sagði Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag.
„Við gerum okkur auðvitað öll grein fyrir því hvað það hlýtur að vera erfitt, fyrir bæði ykkur og ástvini. En trúið okkur, þetta er gert auðvitað fyrst og fremst með ykkar hagsmuni í huga. Þarna vegur þyngra að verja ykkur fyrir veirunni, þannig að við erum að taka meiri hagsmuni fyrir minni. Ég veit að starfsfólk hlúir vel að ykkur og við sendum hlýjar kveðjur.“
Frá og með deginum í dag verður allri valkvæðri þjónustu innan heilbrigðiskerfisins hætt. „Við þurfum að endurskipuleggja heilbrigðisþjónustuna til að ráða við hvoru tveggja; að sinna öllum því sem tengist COVID-19 og því að geta veitt nauðsynlega heilbrigðisþjónustu,“ sagði Alma á fundinum.
Öllu brýnu verður sinnt
Engar valkvæðar skurðaðgerðir verða því framkvæmdar á næstunni og ekki heldur rannsóknir eins og
speglanir. Þá verður tannlækningum hætt, „nema að það sem er brýnt. Og þetta á við hvort heldur er innan eða utan opinbera kerfisins.“Alma sagði ástæðuna fyrir þessari ákvörðun þríþætta. „Heilbrigðisstarfsmenn geta smitast, sjúklingar geta smitast og þetta getur kallað á auka álag eins og komur á bráðamóttökur og legur á sjúkrahúsum ef upp koma fylgikvillar.“
Ítrekaði hún þó að allar brýnar aðgerðir og rannsóknir verði gerðar, „öllu brýnu verður sinnt“.