Fá börn yngri en tíu ára hafa greinst með kórónuveiruna á Íslandi. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að hægt sé fullyrða út frá tölum hingað til að ekki sé verulegt smit af kórónuveirunni í þessum aldurshópi.
Þórólfur greindi á upplýsingafundi almannavarna í dag frá samantekt sem unnin hefur verið um börn yngri en tíu ára. Á veirufræðideild Landspítalans hafa greinst þrjú börn yngri en tíu ára af 268 börnum sem gerir rúmlega 1 prósent. Hjá Íslenskri erfðagreiningu hefur ekkert barn yngri en tíu ára greinst með veiruna af þeim 433 sem þangað hafa farið í sýnatöku.
„Ég held að við getum fullyrt út frá þessum tölum að það er ekki sjáanlegt verulegt smit meðal barna hér í þessu samfélagi,“ sagði Þórólfur, „þannig að þessi umræða sem hefur verið hér undanfarið um mikið smit hjá börnum og smithættu í skólum virðist ekki raungerast í þessum tölum sem við erum að sjá núna hvað svo sem síðar verður.“
Í tilkynningu frá lögreglunni í Vestmannaeyjum í dag eru einnig fluttar góðar fréttir af börnum í þessum faraldri. „Það eru tvímælalaust góðar fréttir að af öllum þeim tugum barna sem voru skimuð úr 1.-4. Bekk [Grunnskóla Vestmannaeyja] var ekkert þeirra með kórónaveiruna. Ekkert sýni greindist heldur jákvætt hjá öllum þeim fjölmörgu sem sýni voru tekin hjá í 7. Bekk. Börnin virðast ekki vera mikið útsett fyrir smiti eða vera að dreifa smiti og það eru gríðarlega góðar fréttir fyrir okkur öll. Tvö börn hafa þó greinst með veiruna hér annað 2ja ára og hitt 15 ára en þau eru ekki mikið lasin. Sá elsti sem greinst hefur hér er 77 ára.“
12% sýna síðasta sólarhrings jákvæð
Ekki er hægt að fullyrða hvað veldur því að óvenjulega fá tilfelli greindust hér á landi síðasta sólarhringinn, að sögn Þórólfs. Af 183 sýnum sem tekin voru reyndust 22 jákvæð eða um 12%. Í gær var hlutfall jákvæðra sýna 25%.
„Það er erfitt að útskýra nákvæmlega af hverju þessi fækkun er,“ sagði Þórólfur, „hvort þetta er raunveruleg [fækkun] eða sveiflur á milli daga, ég hallast nú frekar að því.“
Færri sýni hafa verið tekin síðustu daga vegna yfirvofandi skorts á sýnatökupinnum sem nauðsynlegir eru til rannsóknanna. Þórólfur segir að mögulega hafi það líka eitthvað að segja um niðurstöðurnar nú.
Um helmingur nýgreindra eru fólk sem hefur verið í sóttkví.
Enginn á gjörgæslu
Þórólfur sagði að samkvæmt nýjustu upplýsingum lægju þrettán sjúklingar á Landspítalanum með COVID-19. Enginn þeirra er á gjörgæslu.
Þórólfur sagði að faraldurinn væri enn í vexti en þó ekki miklum samkvæmt tölum síðasta sólarhrings. „Við þurfum að taka lengra tímabil, nokkra daga í einu, til að geta talað um hvort hann er í miklum eða litlum vexti.“
Samkvæmt spálíkaninu mun faraldurinn líklega ná hámarki um miðjan apríl. Smit gætu um miðjan apríl verið á bilinu 2.500—6.000 og um 90-200 einstaklingar þurft að leggjast inn á sjúkrahús vegna sjúkdómsins. Spáin um fjölda þeirra sem þurfa á innlögn að halda fylgir ekki nákvæmlega tölum um smit. Þórólfur segir það skýrast af því að þeir sem eru að greinast hér á landi séu tiltölulega ungir einstaklingar, „og samkvæmt því sem að við vitum þá er ólíklegra að þeir veikist alvarlega“.
Sóttvarnalæknir minnti á að um spá væri að ræða, „þetta er ekki raunveruleikinn og kann að breytast frá degi til dags“.
Aðgerðir sem gripið hefur verið til hér á landi eru meðal annars þær að greina fljótt, einangra og setja í sóttkví. Einnig hefur svo verið gripið til samkomubanns og þær aðgerðir verða hertar nú á miðnætti. Enn er almenningur hvattur til að sinna sóttvörnum eftir fremsta megni, virða fjarlægðarmörk og vernda sérstaklega viðkvæma hópa.
„Það er mjög lítið smit meðal barna sem eru góðar fréttir,“ sagði Þórólfur á fundinum. „Ég held að við séum á réttri leið.“
Munu ekki hika við að grípa til viðurlaga
Víðir Reynisson var spurður á fundinum hvort að gripið verði til sekta eða annarra viðurlaga. Hann benti á að slíkar heimildir væru þegar fyrir hendi í sóttvarnarlögum. „Okkur finnst 98 prósent alls almennings vera að taka þátt í þessu með okkur. Við finnum það líka að þeir sem fara ekki eftir þessu verða fyrir aðkasti. En ef það þarf að grípa til harðari aðgerða þá munum við ekki hika við það en við teljum að líkurnar á því séu ekki miklar.“
Þórólfur sagði að ekki væri fyrirhugað að herða enn á reglum í samkomubanni. Slíkt væri ekki í deiglunni eins og er.