Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) telja rökrétt að Íslandstofa fái úthlutað fjármagn til að fara í sókn í markaðssetningu sjávarafurða erlendis í kjölfar heimsfaraldursins sem nú ríður yfir. „Það framlag mun einnig hjálpa til við að kynna landið fyrir erlendum ferðamönnum. Þess skal síðan getið að helstu markaðir fyrir bæði ferðaþjónustu og íslenskar sjávarafurðir eru hinir sömu. Áhrifin af fjárfestingu í markaðssetningu verða því víðtæk.“
Þetta kemur fram í umsögn samtakanna um frumvarp til fjáraukalaga þar sem sótt er heimild til að eyða þeim fjármunum sem til stendur að eyða í aðgerðarpakka stjórnvalda til að takast á við efnahagsleg áhrif COVID-19 faraldursins.
Kjarninn greindi frá því í gær að samtökin fari þess einnig á leit við efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að gerðar verði breytingar á frumvarpi um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru þess efnis að greiðslu veiðigjalds í ár verði frestað. Áætlaðar tekjur ríkissjóðs vegna veiðigjalda í ár eru tæplega 4,9 milljarðar króna.
Eftirspurn að dragast hratt saman
Í umsögninni um fjáraukalagafrumvarpið eru tiltekin mörg sömu rök og notuð voru til að rökstyðja niðurfellingu veiðigjalda.
Þar er bent áð að COVID-19 faraldurinn lami þjóðlíf bæði austan hafs og vestan og ljóst sé að markaður með íslenskar sjávarafurðir fari hratt minnkandi og sums staðar hverfandi. „Veitingastaðir, hótel, mötuneyti og fiskborð matvöruverslana loka stórum dráttum um víða veröld, auk þess sem staða birgja og dreifikerfa er víða í óvissu. Eftirspurn eftir ferskum sjávarafurðum í Evrópu og Bandaríkjunum er því sem næst engin, með tilheyrandi áhrifum á útflutning fisks frá Íslandi. Þá má vænta þess að hægja mun á eftirspurn eftir frystum afurðum auk þess sem verð fari lækkandi þegar fleiri framleiðendur frysti sínar afurðir. Jafnframt getur hvenær sem er komið til þess að fiskvinnslur og útgerðarfyrirtæki þurfi að loka vegna starfsfólks í sóttkví eða samkomubanns stjórnvalda. Það hefði í för með sér meiriháttar hrun í framboði íslensks sjávarfangs við fordæmalausar aðstæður.“
Segja að ekkert þurfi að fjölyrða um mikilvægið
Í umsögninni er vikið að því að í frumvarpinu sé fjárheimild málaflokks ferðaþjónustu hækkuð um allt að þrjá milljarða króna. Þar af fari 1,5 milljarðar króna í samræmt kynningar- og markaðsstarf erlendis á árunum 2020-2021. Í athugasemdum sem fylgja frumvarpinu segir að átakinu verði ýtt úr vör um leið og aðstæður leyfi í því skyni að laða til landsins ferðamenn sem fyrst og draga úr þeim búsifjum sem faraldurinn hefur valdið og getur enn valdið íslenskri ferðaþjónustu og efnahagslífi.
Vilja að Íslandsstofa fari í markaðsverkefni
Samtökin telja að samstarfsverkefni þar sem atvinnulífið og stjórnvöld vinna saman að bættri stöðu íslensks sjávarfangs á erlendum mörkuðum geti skapað mikinn ávinning fyrir þjóðarbúið.
Þau telja nauðsynlegt að styrkja stöðu Íslands og ná til baka markaðshlutdeild þegar heimsfaraldurinn verður yfirstaðinn en benda á að hingað til hafi fjármögnun Íslandsstofu ekki verið með þeim hætti að hægt hafi verið að fara í víðtæka og sameiginlega markaðssetningu á íslensku sjávarfangi til neytenda. „Markaðsverkefni á vegum Íslandsstofu fyrir aðrar atvinnugreinar, og þá einkum fyrir ferðaþjónustu og landbúnað, svo sem Inspired by Iceland, Iceland Naturally og Horses of Iceland eru dæmi um verkefni þar sem fjármögnun í markaðssókn er skipt á milli atvinnulífs og stjórnvalda. Samtökin telja mikilvægt að fjárveiting til Íslandsstofu fari í samstarfsverkefni með sjávarútvegi líkt og á við um aðrar útflutningsgreinar og að slíkt samstarf myndi gefa góðan ávinning fyrir alla hlutaðeigandi aðila.“
Góð afkoma í rúman áratug
Samkvæmt tölur úr Sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte fyrir árið 2018 sem kynntur var í september í fyrra, og nær yfir rekstur 92 prósent allra fyrirtækja í íslenska sjávarútvegsgeiranum, áttu íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eigið fé upp á 276 milljarða króna í lok þess árs.
Frá hruni og fram til þess tíma hafði eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækjanna batnað um 355 milljarða króna, en hún var neikvæð í lok árs 2008.
Alls greiddu fyrirtækin sér arð upp á 12,3 milljarða króna árið 2018. Frá árinu 2010 og til loka árs 2018 höfðu þau greitt 92,5 milljarða króna til eigenda sinna í arðgreiðslur.
Samanlagt batnaði hagur sjávarútvegarins því um 447,5 milljarða króna frá árinu 2008 og út árið 2018, eða á einum áratug.
Þá var búið að taka tillit til þeirra 63,3 milljarða króna sem útgerðarfyrirtækið greiddu í veiðigjöld frá árinu 2011 og úr árið 2018.