Norræna streymisveitan Nordic Entertainment Group (NENT Group) mun opna fyrir Viaplay streymisþjónustu sína á Íslandi 1. apríl. Í Viaplay er í boði sérframleitt efni, kvikmyndir, þáttaraðir og barnaefni, auk þess sem beinar útsendingar frá íþróttaviðburðum í heimsklassa munu bætast við síðar.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Í tilkynningunni kemur fram að Viaplay þáttaraða- og kvikmyndapakkinn muni kosta 599 krónur (4 evrur) á mánuði á Íslandi. Eins og á öðrum mörkuðum NENT Group mun Viaplay verða aðgengilegt viðskiptavinum á Íslandi gegnum beinar áskriftir og aðild að áskriftum þriðja aðila.
Efnið sem Viaplay býður upp á skiptist í fjóra flokka: Sérframleitt Viaplay efni, kvikmyndir, þáttaraðir, barnaefni og íþróttir í beinni útsendingu.
Viðskiptavinir geta einnig leigt eða keypt nýjustu Hollywoodmyndirnar og norrænu metsölumyndirnar í Viaplay-versluninni.
Á næstu mánuðum er stefnt að því að bæta smám saman við efni á www.viaplay.is, svo áhorfendur munu hafa úr fleiri kvikmyndum og þáttum að velja sem og norrænu efni sem er sérframleitt fyrir Viaplay. Allt barnaefni verður textað eða talsett á íslensku.
Að auki hefur NENT Group tryggt sér íslenskan sýningarrétt á mörgum íþróttaviðburðum- og keppnum; Formúlu 1 kappakstrinum, þýskum handbolta og fótbolta (Bundesliga) WTA í tennis, ameríska hafnaboltanum (Major League Baseball) og mörgu fleiru, segir í tilkynningunni.
Meirihluta þessara viðburða hefur verið frestað tímabundið vegna kórónuveirufaraldursins og munu því bætast við síðar.
Síminn býst við að Viaplay ásælist enska boltann
Viaplay hefur rutt sér til rúms á íþróttamarkaðnum á Norðurlöndunum að undanförnu og hefur nýlega tryggt sér sýningarréttinn að enska boltanum frá 2022 til 2028 í Danmörku, Noregi, Finnlandi og Svíþjóð.
Magnús Ragnarsson framkvæmdastjóri sölu hjá Símanum sagði, í samtali við hlaðvarpsþátt Morgunblaðsins í byrjun febrúar, að Viaplay myndi án efa berjast um sýningarréttinn að vinsælu íþróttaefni hér á landi.
„Ég er 100% viss um að þeir muni berjast við okkur og aðra á markaðnum, um réttinn að sýningum á enska boltanum og Meistaradeildinni og fleiru,“ sagði Magnús.