Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði frá því á upplýsingafundi almannavarna í dag að 21 prósent sýna sem tekin hefðu verið á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans síðasta sólarhringinn hafi reynst jákvæð. Aðeins 1 prósent sýna sem tekin voru á sama tímabili hjá Íslenskri erfðagreiningu voru jákvæð. Helmingur allra nýgreindra var þegar í sóttkví.
Staðfest smit eru nú 890. Átján sjúklingar liggja á Landspítalanum vegna COVID-19 og sex eru á gjörgæsludeild og allir eru þeir í öndunarvél. Í heild hafa 97 náð bata.
Rúmlega þrettán þúsund sýni hafa verið tekin hér á landi vegna nýju kórónuveirunnar eða af um 4% íslensku þjóðarinnar. Þá eru yfir tíu þúsund manns, um 3 prósent þjóðarinnar, í sóttkví.
„Svo við ljúkum pinnamálinu mikla,“ sagði Þórólfur á fundinum, „þá er ekki skortur á pinnum“. Einnig væri staða hlífðarbúnaðar í landinu góð. Gengið hafi nokkuð á þær birgðir en fyrirsjáanlegur skortur er þó ekki sjáanlegur og unnið er að því að útvega meiri birgðir. Sömu sögu væri að segja með lyfjabirgðir, engar vísbendingar væru um yfirvofandi skort.
Fjórar vikur eru í dag frá því að fyrsta tilfellið af COVID-19 greindist hér á landi. Þórólfur sagði að nú værum við líklega hálfnuð „í þessu langhlaupi sem við eigum fyrir höndum“.
Hann benti á að faraldurinn væri enn í vexti hér á landi, ekki mjög hröðum „en við eigum enn eftir að ná hápunktinum“.
Fjórar vikur frá fyrsta smiti
Þegar litið væri um öxl væri hægt að fullyrða að þær aðgerðir sem gripið hefði verið til hér hefðu skilað árangri. Það komi m.a. bersýnilega í ljós þegar litið er til þess hversu mörg nýrra smita greinist hjá fólki sem er þegar í sóttkví.
Búast má við að faraldrinum ljúki í maí og þá vaknar sú spurning hvort að önnur bylgja komi síðar. Þórólfur sagði að rannsaka þyrfti hversu margir Íslendingar hefði smitast þegar að því kemur. „Við eigum enn eftir að ná toppnum og getum búist við að sjá aukningu á greindum tilfellum á næstunni en vonandi mun það fylgja þeirri spá sem gefin hefur verið út.“
Brýndi hann fyrir fólki að virða samkomubannið og búa sig undir að það verði framlengt. Það muni skýrast á næstu dögum eftir því hvernig faraldurinn þróast. Þá minnti hann fólk á að sýna þolinmæði, umburðarlyndi og jákvæðni.“