Ásta Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, ræddu umsagnir Viðskiptaráðs við aðgerðum ríkisstjórnarinnar og þær leiðir sem hægt er að fara í ástandinu sem upp er komið vegna COVID-19 faraldursins í Silfrinu í morgun.
Umsagnir Viðskiptaráðs hafa vakið blendin viðbrögð í samfélaginu en Kjarninn fjallaði um málið í vikunni. Meðal þess sem Viðskiptaráð sagði var að það væru mikil vonbrigði að ekkert hefði heyrst frá stjórnvöldum um stórfellda lækkun starfshlutfalls og tímabundnar kjaraskerðingar opinberra starfsmanna vegna efnahagslegra afleiðinga veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.
Sonja Ýr brást við umsögninni með því að segja að krafan um að opinberir starfsmenn sæti launaskerðingum kæmi eins og köld gusa í andlit fólks sem leggur nótt við nýtan dag að bjarga mannslífum og gera líf samborgara sinna bærilegra, tryggja heilsu almennings og halda uppi nauðsynlegri þjónustu.
Vilja tryggja að fyrirtækin fari ekki í þrot
Ásta sagði í Silfrinu að sú vinnsla þeirra í Viðskiptaráði að skrifa umsagnir um þessi frumvörp hefði unnist mjög hratt. „Það er ljós að allt er undir í þessu ástandi og við þurfum fyrst og fremst að huga að fólkinu í landinu og að heilsu þess – en einnig fjárhag. Það sem mestu máli skiptir í því samhengi er að vernda störfin. Við viljum tryggja það að fyrirtækin fari ekki í þrot í þessu ástandi sem uppi er.“
Hún segir að þau hjá Viðskiptaráði fagni hlutabótaúrræði stjórnvalda og að þau sjái það að fyrirtækin í landinu séu vissulega að hagræða. „Við bendum á það að okkur finnst í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru að það sé sanngjarnt að ríkið hugi að einhvers konar hagræðingu þar sem því verður viðkomið. Við viljum taka það skýrt fram að – og það kom skýrt fram í okkar umsögn – að sjálfsögðu erum við ekki að tala um fólk sem stendur í framvarðarsveit sem er að berjast við COVID-sjúkdóminn og við áttum okkur á því að þetta er stór hópur. Þetta er heilbrigðisfólkið okkar sem er auðvitað að vinna algjört kraftaverk um þessar mundir. Þetta eru leikskólakennararnir okkar, þetta eru kennararnir, löggæslan og aðrir sem við erum vissulega ekki að tala um að taki á sig skert laun eða hlutfall.“
En hverjir eru það þá? Ásta segir að þeim finnist það hafa verið fyrirmyndarskref hjá helstu ráðamönnum Íslands, alþingismönnum og ráðherrum, að þeir ætli að frysta sínar launagreiðslur fram til næstu áramóta. Þau leggi til að beita mætti og beina því fjármagni sem kæmi út úr þessum hagræðingum til þeirra sem virkilega þurfi á því að halda, sérstaklega þeim sem eru í framvarðarsveitinni.
Að hvetja til kjaraskerðingar opinberra starfsmanna ósvífni
Sonja svarar Ástu og segir að nær allir séu í beinni eða óbeinni vinnu þegar kemur að veirunni. Nánast allar stéttir séu undir sem sinna grundvallarþjónustu og margar þeirra séu þess eðlis að fólk átti sig ekki endilega á því hvað það sé að sinna mikilvægum störfum. „En ég held að við stöndum núna frammi fyrir tímamótum þar sem við ættum öll að átta okkur á hversu mikilvæg þessi almannaþjónusta er og hefur aldrei verið jafn mikilvæg.“
Hún segist ekki átta sig á því hvort almennur skilningur sé á því að það hafi ótrúlega rík áhrif á fólk þegar tekjur þeirra eru skertar. „Þetta er áfall. Það er verið að tala um lífsviðurværi þeirra. Þannig að beinlínis að hvetja til þess með þessum hætti finnst okkur einfaldlega ósvífið. Maður gerir það ekki með þessum hætti,“ segir Sonja. Þetta sé ekki leiðin til þess að slægjast eftir auka tekjum.
Alls staðar hægt að spara
Ásta telur að hún og Sonja séu meira sammála en ósammála. „Það er okkur í mun að vernda störfin og þá erum við að tala um öll störfin í landinu. Það er einfaldlega þannig að það er allur vinnumarkaðurinn undir. Bæði opinberi og einkageirinn,“ segir hún.
Þá segir hún að það sem Viðskiptaráð sé að huga að sé að alls staðar sé hægt að finna störf þar sem hægt sé að fara í skert starfshlutfall og spara á þann hátt – alveg eins og fyrirtækin séu að gera – og „við erum í raun bara að segja að það sama þurfi að ganga yfir alla á tímum eins og í dag. Þar sem við stöndum í þeirri óvissu að við vitum auðvitað ekki hversu lengi þetta muni vara eða hvaða áhrif þetta muni hafa. Og við þurfum bara að leggja allar árar í bát saman til að róa að því markmiði að það fjármagn sem losnar fari á rétta staði.“