„Þetta er ný veira og COVID-19 er nýr sjúkdómur sem okkur vatnar meiri upplýsingar um,“ sagði Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. „En það er samt allur heimurinn að hjálpast að við að afla þeirra upplýsinga.“
Hún tók sem dæmi átta klukkustunda langan fjarfund evrópskra gjörgæslulækna á laugardaginn. „Þar kom fram að víðast hvar eins og hér er gríðarlega aukin þörf fyrir gjörgæslumeðferð og öll lönd að vinna í því að fjölga gjörgæsluplássum.“
Alma sagði að fyrst og síðast snerist það um mannskap þó að tæki og birgðir skipti líka miklu máli. Á fundinum kom líka fram að „þessi veira er sjálfri sér samkvæm,“ eins og Alma orðaði það. „Munstur veikinda til dæmis á Ítalíu er svipað og það var í Kína.“
Enn er það svo að 80% þeirra sem greinast eru með lítil einkenni, 15% eru veikir, mismunandi mikið þó en 5% eru alvarlega veikir.
Alma benti svo aftur á að það væru vísbendingar frá Norðurlöndunum um að það kunni að vera að fleiri yngri, þ.e. yfir fertugu, séu að veikjast og leggjast inn á gjörgæslu en í fyrstu var talið. Það er hins vegar enn óstaðfest.
„Skilaboðin eru þau að þetta er mjög alvarlegur faraldur og þetta eru mjög alvarleg veikindi og þess vegna full ástæða til að grípa til þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til og full ástæða til að hlýða fyrirmælum og leggja sitt af mörkum.“
Aðgerðirnar hér á landi miða að því að hægja á faraldrinum og hefta útbreiðslu hans. „Því við ráðum við að fá marga veika inn á gjörgæslu yfir lengri tíma en ekki ef þeir kæmu allir á örfáum dögum.“
Alma sagði það góðar fréttir að hér á landi væri faraldurinn ekki í veldisvexti eins og víða annars staðar. „Við bindum vissar vonir við það að með því að teygja á faraldrinum að þá vinnist tími til að þróa einhverja meðferð. Það er þegar fjöldi lyfja til skoðunar og þrjú hundruð rannsóknir í gangi í heiminum.“
Eins og stendur snýst meðferðin að sögn Ölmu fyrst og fremst um almenna gjörgæslumeðferð, þ.e. að styðja við starfsemi líffæra með tækjum og lyfjum.“
Mikilvægt að vernda konur og starfsfólk
Alma ítrekaði á fundinum að það væri ekkert sem benti til að COVID-19 legðist harðar á óléttar konur en aðra. Gripið hafi verið til margra aðgerða á sjúkrahúsum landsins hvað varðar mæðravernd, fæðingar og sængurlegur. „Við viljum auðvitað vernda konurnar eins og aðra en líka þá þarf meiri mannafla til að sinna fæðandi konu sem er með COVID. Einnig er líka gríðarlega mikilvægt að vernda þann fámenna hóp starfsmanna sem að sinnir þessari sérhæfðu þjónustu.“
Hún sagði sérfræðinga fylgjast mjög vel með þróuninni hvað þetta varðar og að mjög fljótlega, jafnvel á morgun, verði hópur þeirra kallaður saman til ráðagerða.