Ellefu manns með COVID-19 sjúkdóminn liggja á gjörgæsludeild Landspítalans. Níu eru í öndunarvél. Enginn sjúklingur sem hefur þurft á slíkri meðferð að halda hefur enn sem komið er lokið henni. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að þetta staðfesti það sem sést hafi í öðrum löndum: Það tekur töluvert langan tíma að ná sér af veikindum.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að bestu spár væru að ganga eftir hvað varðar fjölda smitaðra en verstu spár hvað varðar þann fjölda sem veikist alvarlega og þarf á gjörgæslumeðferð að halda.
Níu prósent sýna sem tekin voru á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans í gær reyndust jákvæð. Hjá Íslenskri erfðagreiningu voru aðeins tvö ný smit staðfest eða um 0,2 prósent af öllum sýnum sem tekin voru. „Þetta er með því lægsta sem við höfum séð,“ sagði Þórólfur á fundinum. Hann sagði að líklega væri of snemmt að segja til um hvort að farið sé að hægja á vexti faraldursins. Til þess þyrftu enn nokkrir dagar að líða.
Mikið álag væri á Landspítala og gjörgæsludeildinni og lítið þarf útaf að bera í fjölda smita svo þar skapist erfitt ástand. Því sé gríðarlega mikilvægt að halda áfram þeim aðgerðum sem hér hefur verið beitt. Samkomubannið standi til 13. Apríl en landsmenn þurfi að undirbúa sig fyrir áframhald á því. „Við megum ekki hætta of snemma svo að við fáum eitthvert bakslag í þennan faraldur.“
Furðar sig á fjölda undanþágubeiðna
Þórólfur sagðist á fundinum furða sig á þeim fjölda beiðna um undanþágur frá sóttkví og samkomubanni sem berast. Ekki væri hægt að veita mörgum undanþágu einfaldlega af því að þá eykst hættan á því að smitum fjölgi hratt.
Þá vildi hann ítreka að það að fara í sýnatöku í sóttkví og fá neikvætt út úr henni muni ekki létta á sóttkvínni. „Það er alls ekki svo,“ sagði Þórólfur með áherslu. „Prófið sýnir stöðuna akkúrat þegar það er tekið. [...] Þannig að próf styttir ekki sóttkví.“
Alma Möller landlæknir sagði að vel væri fylgst með álagi á heilbrigðiskerfið og að núna væri það mest á Landspítala og heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Við vitum að álagið mun vaxa enn frekar,“ sagði hún. „Við vinnum að því að hindra smit og hægja á faraldri, sinna sjúklingum með covid eins vel og hægt er og að veita aðra nauðsynlega heibrigðisþjónustu.“
Hún sagði að farið væri að bera á þreytu meðal heilbrigðisstarfsmanna og skyldi engan undra. „Ég vil biðja fólk að hlúa að sjálfu sér og öðrum, við verðum að hafa úthald fyrir þær vikur sem framundan eru.“
Þórólfur tók í svipaðan streng: „Við skulum muna að þetta er langhlaup og að við erum kannski um það bil hálfnuð. Við verðum að sýna þolgæði, úthald og jákvæðni til að komast vel í gegnum þetta.“