Snjallsímaforritið Rakning C-19, sem ætlað er að auðvelda smitrakningu vegna COVID-19 faraldursins, er tilbúið og landsmenn munu brátt geta sótt forritið fyrir bæði iPhone og Android-snjallsíma.
Forritið er í skoðun hjá bæði Apple og Google sem munu svo dreifa forritinu í gegnum netverslanir sínar, samkvæmt því sem fram kom í máli Ölmu Möller landlæknis á daglegum upplýsingafundi vegna veirufaraldursins í dag.
„Alveg eins og við viljum vanda okkur vilja Apple og Google gera það líka og eru að rýna tilgang þess og öryggi, svo þetta tekur einhvern tíma en við erum að nýta allar leiðir til að flýta þessu sem mest,“ sagði Alma, en tilkynning verður send út um leið og forritið verður aðgengilegt.
Rúm vika er síðan hönnun á smitrakningaforritinu hófst, en sambærilegum forritum hefur verið beitt til þess að auðvelda smitrakningu í öðrum ríkjum, til dæmis í Singapúr og Suður-Kóreu. Smitrakning með hefðbundnum leiðum er bæði tíma- og mannaflafrek, auk þess sem erfitt getur reynst fyrir fólk sem reynist sýkt af COVID-19 að rifja ferðir sínar nákvæmlega upp.
Íslensk fyrirtæki buðust til að hjálpa til við þróunina
Landlæknisembættið ber ábyrgð á forritinu, en íslensku fyrirtækin Aranja, Kolibri, Stokkur, Sensa og Samsýn auk forritara frá Íslenskri erfðagreiningu og Syndis buðu fram aðstoð sína við smíðina án endurgjalds, samkvæmt tilkynningu á vef embættis landlæknis. Þar segir einnig að í hönnunarteyminu hafi einnig verið reynt fólk sem hefur starfað í tugi ára við upplýsingaöryggi og persónuvernd.
„Notkun appsins byggir á samþykki notenda, bæði til að taka appið í notkun og til miðlunar upplýsinga síðar meir ef þess gerist þörf, en þetta er kallað tvöfalt samþykki. Appið notar GPS staðsetningargögn og eru upplýsingar um ferðir viðkomandi eingöngu vistaðar á síma notanda. Ef notandi greinist með smit og rakningateymið þarf að rekja ferðir þá fær notandi beiðni um að miðla þeim upplýsingum til rakningateymisins.
Um leið og smitrakningateymið biður um aðgang að gögnunum mun það einnig óska eftir kennitölu viðkomandi svo ekki fari á milli mála hver er á bakvið gögnin. Þannig er tryggt að enginn hefur aðgang að þessum upplýsingum nema að notandinn vilji það. Staðsetningargögnunum verður svo eytt um leið og rakningateymið þarf ekki lengur á þeim að halda,“ segir um virkni forritsins í tilkynningu á vef landlæknisembættisins.
„Hönnunarteymið var í reglulegu sambandi við Persónuvernd til að upplýsa um verkefnið og eru öllum þessum aðilum færðar miklar þakkir. Öryggi kerfisins hefur nú staðist úttekt óháðs aðila,“ segir einnig á vef embættis landlæknis.
Embættið segir að því fleiri sem sæki appið, þeim mun betur muni það gagnast smitrakningateyminu, en einnig segir að appið muni gagnast við „aðstoða alla, sem velja að taka þátt, við að rifja upp ferðir sínar.“
Biðlað er til almennings um að sækja forritið og vista á símum sínum þegar það verður aðgengilegt, í þeirri viðleitni að halda áfram í því verkefni að lágmarka skaðann af COVID-19.