Gagnrýni Samtaka atvinnulífsins á ASÍ fyrir að gefa ekki eftir kauphækkanir og lífeyrisréttindi við ríkjandi aðstæður og samanburður við stöðuna eftir hrunið 2008 er bæði rangur og villandi. Þetta kemur fram í ályktun miðstjórnar ASÍ sem send var út í dag.
Þá segir í ályktuninni að aldrei hafi staðið á samninganefnd ASÍ að eiga samtal við atvinnurekendur og stjórnvöld um sameiginlegar lausnir. „Þeir afarkostir sem Samtök atvinnulífsins stilltu upp gagnvart samninganefnd ASÍ var hins vegar hafnað af miklum meirihluta nefndarinnar eftir breitt samráð við bakland innan verkalýðshreyfingarinnar. Ábyrgðina er ekki hægt að setja á launafólk sem nú þegar hefur orðið fyrir miklum búsifjum,“ segir í ályktuninni.
Alþýðusamband Íslands muni þannig standa vörð um þær vinnumarkaðsaðgerðir sem ákveðnar hafa verið og geri sömu kröfur til atvinnurekenda og samtaka þeirra.
„Sterk verkalýðshreyfing er merki um heilbrigðan og vel skipulagðan vinnumarkað. Á samdráttar- og krepputímum er vegið að kjörum og réttindum vinnandi fólks. Þá reynir á samstöðu verkalýðshreyfingarinnar sem aldrei fyrr. Mikill fjöldi félaga okkar er að missa vinnu eða tapa réttindum og taka á sig kjaraskerðingar. Þessa félaga okkar þurfum við að verja með sameinuðu afli okkar.
Það áfall sem á okkur dynur afhjúpar veikleika á vinnumarkaði sem endurspeglast í slæmri réttarstöðu launafólks í ótryggum og réttlitlum ráðningarsamböndum. Formlegt ráðningarsamband ásamt aðild að stéttarfélagi og réttindi skv. kjarasamningum er besta vörn sem launamaður á vinnumarkaði getur fengið. Á það reynir núna.“ segir í ályktuninni.
Verðmætur lýðræðisvettvangur sem skapar grunn fyrir sameiginlegar ákvarðanir
Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir í stöðuuppfærslu á Facebook í dag að um leið og þetta ástand, sem nú ríkir vegna heimsfaraldursins, kom upp hafi hún virkjað samninganefnd ASÍ og hafi nefndin fundað daglega í gegnum fjarfund.
„Það er vettvangurinn til að ræða opinskátt og í trúnaði allar mögulegar og ómögulegar hugmyndir, taka stöðuna sem breytist dag frá degi og ráða ráðum okkar. Þetta er verðmætur lýðræðisvettvangur sem skapar grunn fyrir sameiginlegar ákvarðanir jafnvel þótt fólk sé ekki alltaf sammála. Þær tillögur sem nú er deilt um og ganga út á skerðingar á réttindum launafólks úr lífeyrissjóðum voru til umræðu þar en um þær voru afar skiptar skoðanir.
Það er varasamt að skerða réttindi launafólks úr lífeyrissjóðum til allrar framtíðar. Það má vel gagnrýna lífeyrissjóðakerfið en ég mun standa vörð um þann rétt sem vinnandi fólk hefur áunnið sér eins og nokkur kostur er, enda er lífeyririnn sennilega með mikilvægari réttindum sem fólk á. Það er freistandi að fara sífellt inn í lífeyrisréttindin til að leita lausna við tímabundnum vanda en þeim mun mikilvægara að hreyfingin standi í lappirnar,“ skrifar hún.
Hagsmunir launafólks verða að vera tryggðir
Þá segist Drífa halda sig við það sem hún hefur hingað til sagt: „Ef á að krukka í réttindum vinnandi fólks þá þarf það að gerast í stærra samhengi, í samráði og samtali við opinbera markaðinn, atvinnurekendur og stjórnvöld. Ef farið er inn í kjarasamninga verða hagsmunir launafólks að vera tryggðir með öðrum hætti og þeim bætt upp skerðingin. Þetta er mitt viðhorf og það hefur ekki breyst síðustu vikur.
Sterk verkalýðshreyfing er gríðarlega mikilvæg um þessar mundir eins og alla jafna á krísutímum. Ég harma úrsagnir úr miðstjórn ASÍ enda er samstaða hreyfinga launafólks ein af grunnforsendum þess að staðinn sé vörður um kjör almennings. Við munum halda ótrauð áfram í þeim risaverkefnum sem við erum að glíma við.“
Í tilefni frétta dagsins vil ég segja þetta: Um leið og þetta ástand sem nú ríkir vegna heimsfaraldurs skapaðist...
Posted by Drífa Snædal on Wednesday, April 1, 2020
Sterk verkalýðshreyfing aldrei eins mikilvæg og í kreppu
Þá kemur enn fremur fram í ályktun miðstjórnarinnar að Alþýðusambandið hafi á undanförnum vikum unnið með stjórnvöldum og samtökum atvinnurekenda að aðgerðum sem ætlað sé að minnka höggið af niðursveiflunni á heimil og fyrirtæki. En það þurfi að gera betur. Atvinnuleysisbætur þurfi að hækka og það þurfi að tryggja fé til virkra vinnumarkaðsaðgerða. Það þurfi að tryggja afkomuöryggi hópa sem ekki falla undir lög um hlutabætur eða um laun í sóttkví. Þar eigi í hlut viðkvæmir hópar sem þurfi að verja betur. Það þurfi að tryggja húsnæðisöryggi. Það þurfi að nýta skattkerfið með markvissari hætti til tekjujöfnunar og verja grunnstoðir velferðarkerfisins. Þá verði að tryggja að verðlag haldist stöðugt og kjör skerðist ekki vegna verðbólgu. Styrkur og mikilvægi opinbera heilbrigðiskerfisins ætti jafnframt að vera öllum ljós við þær aðstæður sem nú ríkja.
„Sterk verkalýðshreyfing er mikilvæg á öllum tímum en aldrei eins og í kreppu. Þá reynir á samstöðu og skýra sýn. Á slíkum stundum er mikilvægt að sjá heildarmyndina. Verja réttindi og kjör og standa dyggan vörð um velferðarkerfið. Við erum sterkari saman,“ segir að lokum í ályktun miðstjórnar ASÍ.