Á meðan við mannfólkið glímum við mestu heilbrigðisógn síðustu áratuga og gripið hefur verið til harðra aðgerða til að hefta útbreiðslu veirunnar taka vísindamenn eftir því að jörðin sjálf, plánetan okkar, er rólegri. Dregið hefur úr því sem kallast jarðórói (seismic noise), stöðugum titringi jarðskorpunnar. Þetta telja þeir líklega afleiðingu þess að umferð farartækja og athafnir manna almennt eru mun minni. Vísindamennirnir segja að þetta gæti orðið til þess að hægt verði að fylgjast betur en áður með því sem er að gerast í iðrum jarðar; smáum jarðskjálftum og öðrum hreyfingum.
Um þetta er fjallað í grein á vef vísindaritsins Nature.
Þar er haft eftir Thomas Lecocq, jarðskjálftafræðingi í Belgíu, að mjög sjaldan dragi svo mikið úr hávaða og öðru álagi á jörðinni. Það gerist aðeins í stuttan tíma ár hvert yfir jól.
Í greininni kemur fram að hreyfingar séu í jarðskorpunni af náttúrulegum orsökum en einnig vegna titrings vegna farartækja á hreyfingu og margvíslegrar starfsemi, svo sem stórra verksmiðja. Hver uppspretta titringsins fyrir sig hafi ekki mikið að segja en þegar þetta álag á jörðina safnast saman veldur það því sem kalla mætti baksuði sem verður aftur til þess að erfiðara reynist að greina náttúrulegar hreyfingar af sömu tíðni.
Lecocq segir að vísindamenn við rannsóknarstofnun í Brussel hafi komist að því að takmarkanir á ferðalögum fólks og athöfnum manna hafi orðið til þess að dregið hafi úr jarðóróa af mannavöldum um þriðjung. Á sama tíma geti mælitæki numið náttúrulegar hreyfingar jarðarinnar af meiri næmni en áður.
Fleiri vísindamenn en þeir belgísku hafa komið auga á þetta. Celeste Labedz, jarðeðlisfræðingur í Kaliforníu, hefur svipaða kenningu. Hún segir jarðóróann hafa minnkað verulega.
Mörg mælitæki sem hafa það hlutverk að fylgjast með hreyfingum jarðar eru hins vegar staðsett langt frá byggð – einmitt til að koma í veg fyrir að athafnir manna hafi áhrif á niðurstöðurnar. Þess vegna er ólíklegt að á þeim muni sjást miklar breytingar. En mögulega einhverjar.