Heildsala ÁTVR á íslensku neftóbaki dróst saman um 32 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins miðað við söluna á sama tímabili í fyrra, sem nemur samdrætti upp á tæplega 66 þúsund dollur.
Svokallaðir nikótínkoddar, tóbakslausir púðar frá erlendum framleiðendum sem eru til notkunar undir efri vör, virðast vera að taka stóran hluta af markaðnum, en vitað er að þrátt fyrir að íslenska neftóbakið heiti neftóbak og notkun munntóbaks sé ólögleg á Íslandi fer stærstur hluti þess undir varir, aðallega ungra karlmanna.
Samdrátturinn í heildsölunni hjá ÁTVR nemur um 3,3 tonnum það sem af er ári, en í janúar, febrúar og mars seldi ÁTVR samanlagt 7.066 kíló af íslensku neftóbaki í heildsölu, samanborið við 10.364 kíló á sama tímaskeiði í fyrra. Sé einungis horft til marsmánaðar dróst salan saman um 1,4 tonn, en 2.339 kíló seldust samanborið við 3.729 kíló í mars árið 2019.
Fimmtíu grömm af tóbaki eru í hverri íslenskri neftóbaksdollu og nemur þessi samdráttur því um 27.800 dollum einungis í marsmánuði, en 65.960 dollum sé horft til fyrstu þriggja mánaða ársins.
Einsýnt virðist að margir munntóbaksneytendur séu að skipta íslenska „ruddanum“ út fyrir sænsku níkótínkoddana, sem eru tóbakslausir. Fjölmörg vörumerki hafa að undanförnu verið markaðssett hér á landi sem „alvöru valkostir“ við íslenska neftóbakið og fleiri tóbaksvörur.
Á vef fyrirtækisins Nicoland, sem flytur White Fox-nikótínpúðana til landsins, segir til dæmis að á bak við fyrirtækið standi „fólk sem hefur brennandi áhuga á að taka slaginn við íslenska neftóbakið, ruddann, retturnar eða bölvað veipið“.
„Við þekkjum það á eigin skinni hvað er erfitt að losa sig við tóbakið og ekki einu sinni minnast á hversu dýrt það er,“ segir á vefsíðu fyrirtækisins, en algeng verð á níkótínkoddadósum í verslunum hér á landi er frá 950 og upp í 1.300 krónur. Oftast eru á bilinu 16-24 koddar í hverri dós.
Telur þróunina að einhverju leyti jákvæða
„Um leið og það er jákvætt að munntóbakið sé að minnka þá er þetta ný neysla sem við vitum ekkert um,“ segir Viðar Jensson, verkefnastjóri tóbaksvarna hjá embætti landlæknis, í samtali við Kjarnann. Hann segist þó hafa tilhneigingu til þess að halda að níkótínkoddarnir séu ekki jafn skaðlegir heilsu fólks og íslenska neftóbakið, sem sé í grunninn sama tóbakið og það sænska, og hafi að minnsta kosti 28 krabbameinsvaldandi innihaldsefni.
„Nýja hugtakið í tóbaksvarnabransanum er hins vegar „polly use“ og þá er átt við ungt fólk sem notar allt og fer úr einu í annað. Notar smá svona, smá rafrettur og reykir smá,“ segir Viðar. Hann segir níkótínpúðana þannig valda heilbrigðisyfirvöldum hér á landi nokkrum áhyggjum, enda sé það eflaust svo að ungt fólk sæki í þessa nýju vöru á markaði rétt eins og aðrar staðkvæmdarvörur við hefðbundið tóbak, til dæmis rafrettur.
„Það er langt síðan við heyrðum af því að á framhaldsskólaböllum væru þessir púðar úti um allt, en rafretturnar hefðu minnkað,“ segir Viðar, en segir þó lítið hægt að álykta um notkunina út frá því, þar sem gögn vanti.
Til stendur að bæta úr því, en fyrirtækið Rannsóknir og greining, sem gerir reglulega kannanir á tóbaksneyslu í grunnskólum og framhaldsskólum, mun að sögn Viðars sérstaklega spyrja út í nikótínpúðana næst þegar slíkar kannanir verða framkvæmdar.
Ísland mun svo fljótlega innleiða nýja tilskipun Evrópusambandins um tóbaksvarnir og í kjölfarið munu níkótínkoddarnir falla undir tóbaksvarnarlög og sérstök ákvæði verða sett um merkingar á þeim og tilkynningar um innihaldslýsingar, sem Viðar segir jákvætt, en innleiðingin þessarar tilskipunar hjá EFTA-ríkjunum hefur tafist vegna málaferla í Noregi og Liectenstein.
70-80 prósent af neftóbaki fer undir varir en ekki í nef
Embætti landlæknis fór að sögn Viðar fyrst árið 2012 að skoða hversu mikil munntóbaksnotkun væri á Íslandi. Þá hafi það komið verulega á óvart að 70-80 prósent af öllu seldu íslensku neftóbaki virtist rata undir varir en ekki upp í nef.
Hlutfallið hefur haldist svipað síðan þá, en kannanir á þessu hafa verið framkvæmdar með þriggja ára millibili, síðast árið 2018. Samfara hefur sala neftóbaksins farið vaxandi ár frá ári og er sá samdráttur sem nú má merkja á tóbakssölunni frá ÁTVR því óvenjulegur.
Munntóbaksnotkun hefur verið að aukast mikið undanfarin ár, en samkvæmt nýlegum Talnabrunni embættis landlæknis tóku 24 prósent ungra karlmanna á aldrinum 18-34 ára tóbak í vörina og hið sama átti við um 11 prósent karla á aldrinum 35-54 ára. Aukning meðal ungra kvenna á aldrinum 18-34 ára hefur einnig orðið, en í fyrra tóku 9 prósent þeirra tóbak í vörina.