Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, gerir grein fyrir afstöðu sinni á Facebook í dag varðandi svokallaða lífeyrisleið sem Samtök atvinnulífsins (SA) báru á borð fyrir Alþýðusamband Íslands (ASÍ) á dögunum en ASÍ hafnaði leiðinni í vikunni. Ragnar Þór sagði sig úr miðstjórn ASÍ á mánudaginn.
„Svo því sé haldið til haga þá hafa hugmyndir okkar um svokallaða lífeyrisleið, sem við lögðum til, ekkert að gera með að launafólk borgi sínar eigin hækkanir og hefur ekkert með skoðanir SA eða viðhorf Viðskiptaráðs að gera.
Þessi hugmynd var fyrst og fremst okkar innlegg í mögulegar aðgerðir við að verja kaupmátt launa, heimilin, verja fleiri störf og lífskjör okkar félagsmanna og almennings,“ skrifar Ragnar Þór á Facebook.
Vill forðast misskilning og rangtúlkanir
Hann segir að með þessari leið hafi alltaf staðið til að fá stjórnvöld að borðinu. Stórnvöld sem hafi verið tilbúin að skoða aðgerðir varðandi þak á vísitölu verðtryggðra lána og fleiri mikilvæg atriði sem skipti fólkið þeirra öllu máli. Það hafi jafnframt staðið til að ræða við opinberu félögin og að ræða kosti og galla allra leiða sem lagðar eru fram til að milda höggið sem framundan er.
En málið hafi aldrei komist í málefnalega umræðu innan samninganefndar ASÍ. „Þess vegna vil ég gera grein fyrir því, með ítarlegum hætti, til að forðast misskilning og rangtúlkanir,“ skrifar Ragnar Þór.
Verst að gera ekki neitt
Hann segir að versta leiðin í þessari stöðu sé að gera ekki neitt. „Það þýðir lítið að benda á ríkið í þessum efnum þar sem við sjálf erum ríkið. Það er alveg sama hver skrifar reikninginn, hann fer inn um lúgu skattgreiðenda hvernig sem fer. Í formi skerðinga á réttindum, tapi ríkissjóðs, verðbólgu og lægri kaupmætti.
Ég tek það fram að rétt eins og flestir landsmenn hef ég verulegar áhyggjur af mörgum þeim úrræðum sem ríkisstjórnin hefur sett fram, í ábyrgð skattgreiðenda, og hvernig fjármálakerfinu sé treyst i blindni fyrir 350 milljarða útlánasvigrúmi svo eitthvað sé nefnt,“ skrifar hann.
Hugmyndin gekk út á kaupmáttartryggingu
Ragnar Þór greinir frá því að hugmynd VR hafi gengið út á kaupmáttartryggingu. „Í dag er mótframlag í lífeyrissjóði 11,5 prósent. Samið var um hækkun á mótframlagi árið 2016. Það hækkaði úr 8 prósent í 11,5 prósent í þrepum síðasta hækkun var 1. júlí 2018. Í stað þess að fresta launahækkunum er hægt að fara í aðrar aðgerðir sem munu hafa mun minni áhrif á eftirspurn í hagkerfinu, það er að lækka tímabundið mótframlag í lífeyrissjóði úr 11,5 prósent í 8 prósent.“
Með slíkri aðgerð væri verið að auka ráðstöfunartekjur launafólks og þar með einkaneysluna en skerða tímabundið fjárfestingar lífeyrissjóða sem hafi fáa fjárfestingakosti þar sem markaðir séu frjálsu falli.
Skilyrði að verðlag væri stöðugt á tímabilinu
Skilyrði fyrir því að stéttarfélög væru tilbúin að gefa slíkt eftir sé að verðlag verði stöðugt á tímabilinu, hækki ekki meira en sem nemur verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands eða 2,5 prósent á ári. Í raun sé ekki verið að gefa eftir mótframlag heldur að kaupa tryggingu fyrir því að launafólk verði ekki fyrir kaupmáttarskerðingu.
Ef verðbólgan fari af stað þá verði engin breyting á mótframlagi í lífeyrissjóði og það greitt að fullu. Ef verðbólga verði lág þá sé kaupmáttur tryggður með tímabundinni lækkun á iðgjaldi í lífeyrissjóði. Auk þess sem færa megi fram mjög sterk rök fyrir því að lækkun á launakostnaði leiði af sér minna atvinnuleysi í þeirri kreppu sem Íslendingar eru á ganga í gegnum þessa dagana.
Sagan sýnir hvernig niðursveiflur hafa leikið launafólk
„Skerðing á lífeyri sjóðafélaga lífeyrissjóða miðað við 3 mánaða lækkun væri um 0,16 prósent eða um 772 krónur á mánuði miðað við 40 ára gamlan einstakling sem er með 650.000 krónur í laun á mánuði. Ef kaupmáttur myndi skerðast um 1 prósent þá væri það að kosta launafólk um 4.300 kr. á mánuði miða við 650.000 kr. laun á mánuði. Ef kaupmáttur myndi skerðast um 3 prósent eins og gerðist í niðursveiflunni árið 2001 myndi það kosta launafólk um 12.900 kr. á mánuði miðað við sömu forsendur,“ skrifar Ragnar Þór.
Hann veltir því fyrir sér hvort og hvenær væri hægt að ná aftur þeim kaupmætti sem mögulega tapast í þeirri efnahagsniðursveiflu sem við sjáum fram á. Sé litið til sögunnar sjáist vel hvernig niðursveiflur hafi leikið launafólk.
Frá 1913 hafi verið átta niðursveiflur. Í öllum nema einni hafi kaupmáttur launa dregist saman. Í seinustu þremur: 1991 til 1992, 2001 og svo 2008 hafi kaupmáttur lækkað um -8, -3 og -15 prósent. Saga seinustu 100 ára standi því ekki með launafólki um þessa mundir.
Alltaf tilbúin að koma aftur að samningaborðinu
„Að þessu sögðu ætti öllum að vera ljóst að tilgangur okkar var að verja kaupmátt og hagsmuni félagsmanna okkar fyrst og síðast. Að fórna litlum hagsmunum fyrir mikla.
Við erum alltaf tilbúin að koma aftur að samningaborðinu en sættum okkur ekki við að gera ekki neitt,“ skrifar Ragnar Þór.
Kæru félagar. Svo því sé haldið til haga þá hafa hugmyndir okkar um svokallaða lífeyrisleið, sem við lögðum til, ekkert...
Posted by Ragnar Þór Ingólfsson on Thursday, April 2, 2020