Aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum hefur, í ljósi nýrra smitrakninga á norðanverðum Vestfjörðum, ákveðið að herða aðgerðir til varnar COVID-19 á Suðureyri, Flateyri, Þingeyri og Súðavík. Þar verður leik- og grunnskólum lokað frá og með morgundeginum og samkomubann miðað við fimm manns. Þá mega ekki fleiri en 30 manns fara inn í stærri verslanir.
Áður hafði verið gripið til sömu aðgerða í Bolungarvík og á Ísafirði og eru þær enn í gildi, en tugir smita hafa greinst á norðanverðum Vestfjörðum undanfarna daga, þar af fimm ný smit síðasta sólarhring sem nú er verið að rekja. Einnig er verið að bíða eftir að nokkur fjöldi sýna af svæðinu komi úr greiningu.
„Fólk sem finnur til einkenna á að halda sig heima og hafa samband við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða í síma 450 4500 eða á heilsuvera.is. Tekin eru sýni alla virka daga á Ísafirði kl. 10-11, en fyrst þarf að fá samband við lækni. Spurningum um sjúkdóminn sjálfan er mörgum svarað á covid.is. Frekari upplýsingar um þessar reglur verða veittar í netfanginu yfirstjorn-lvf@logreglan.is og á Facebook-síðu Lögreglunnar á Vestfjörðum,“ segir í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Þung staða hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða
Nokkur smit hafa greinst á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík undanfarna daga og þar hefur starfsfólk þurft að fara í sóttkví, sem leitt hefur til mönnunarvanda hjá heilbrigðisstofnuninni, sem einnig vantar fólk til starfa á bráðadeild.
Bæði sjúkraliðar og hjúkrunarfræðingar hafa verið hvattir til þess að bjóða sig tímabundið fram til starfa á norðanverðum Vestfjörðum. Fram kom á daglegum upplýsingafundi almannavarna í dag að nægilegur fjöldi sjúkraliða hefði þegar boðið sig fram, en að enn vantaði hjúkrunarfræðinga.
Í ljósi nýrra smitrakninga á norðanverðum Vestfjörðum hefur aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum í samráði við...
Posted by Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra on Sunday, April 5, 2020