Staðfest smit af kórónuveirunni eru orðin 1.562 hér á landi. Í gær voru þau 1.486 og hefur þeim því fjölgað um 76 á einum sólarhring. Í dag eru 5.262 manns í sóttkví og hefur þeim fækkað frá því í gær er fjöldinn var 5.511. Alls hafa 12.467 manns lokið sóttkví.
Í dag eru 1.096 einstaklingar með virk COVID-19 smit en í gær voru þeir 1.054. Alls hafa 460 náð bata.
Tæplega sextíu ný smit greindust í þeim 867 sýnum sem tekin voru á sýkla- og veirufræðideild Landspítala í gær. Af 1.619 sýnum sem tekin voru hjá Íslenskri erfðagreiningu fundust fimmtán ný smit. Alls hafa 27.880 sýni verið tekin hér á landi frá upphafi faraldursins.
Á sjúkrahúsi liggja 38 sjúklingar vegna COVID-19 sjúkdómsins, þar a 12 á gjörgæslu, samkvæmt því sem fram kemur á vefnum covid.is.
Af þeim sem greinst hafa með COVID-19 á Íslandi eru sex látin. Tveir létust í gær, karlmaður á níræðisaldri sem var íbúi á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík og karlmaður á sjötugsaldri sem lá á Landspítalanum.