Yfirvöld í Kína greindu frá því í gær að enginn hefði látist af völdum COVID-19 sjúkdómsins þar í landi í dag, í fyrsta sinn frá því í janúar. Stefnt er að því að aflétta enn frekar takmörkunum á samneyti fólks í Wuhan-borg en þar á veiran uppruna sinn.
Lífið í Wuhan hefur smám saman verið að færast nær eðlilegu horfi síðustu vikur. Neðanjarðarlestirnar hófu að ganga á ný í lok mars og stefnt er að því að aflétta banni á ferðalögum inn og út úr borginni á morgun, miðvikudag.
Samkvæmt opinberum tölum hafa ríflega 83.600 manns greinst með veiruna í Kína og að minnsta kosti 3.330 hafa látist úr sjúkdómnum sem hún veldur.
Í frétt New York Times segir að margir haldið því fram að dánartalan sé mun hærri. Bandaríska leyniþjónustan telur sig hafa heimildir fyrir því að stjórnvöld hafi logið til um fjölda veikra og látinna. Því sé í raun ekki vitað hversu margir hafi sýkst og týnt lífi í faraldrinum.
Kínversk stjórnvöld hafa lagt sig fram við að þagga niður í umræðu á netinu um ástandið í Wuhan og Hubei-héraði, segir í frétt New York Times. Einnig hafi áhersla verið lögð á það að hinir látnu væru grafnir í kyrrþey.
Yfirvöld í Kína hafa opinberlega sagt að nær öll ný smit í landinu hafi greinst í fólki sem var að koma frá útlöndum.
Ítrekað hefur komið fram í máli margra sérfræðinga í faraldsfræðum að ekki sé hægt að bera saman fjölda greindra milli landa. Í Kína eru tilfelli þar sem sýkt fólk er einkennalaust t.d. ekki talin með í fjölda sýkinga.