Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að þó að aðgerðum vegna faraldurs COVID-19 verði aflétt smám saman eftir 4. maí sé ljóst að við þurfum öll að stunda ítarlegt hreinlæti, virða fjarlægðarmörk, forðast mannmarga staði og vernda viðkvæma hópa að minnsta kosti út þetta ár. Aðgerðum sem í gildi eru verður aflétt í áföngum sem hver og einn getur staðið í nokkrar vikur. Ef smitum fjölgar á ný verða aðgerðir hertar aftur.
Á upplýsingafundi almannavarna í dag fór Þórólfur yfir nýjustu tölur um útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi. Hann sagði að óvenju fá sýni hefðu verið rannsökuð í gær en að sýnum sem skoðuð voru hjá veirufræðideild Landspítalans hafi 4 prósent reynst jákvæð og 1 prósent sýna hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Átta sjúklingar liggja á gjörgæsludeild Landspítalans með COVID-19 og sex þeirra eru í öndunarvél. Tveir eru á gjörgæslu á Akureyri en hvorugur þeirra er í öndunarvél.
„Ég held að það sé óhætt að segja að faraldurinn sé á niðurleið eins og undanfarna daga og að lítið samfélagssmit sé í gangi,“ sagði Þórólfur. Hann ítrekaði þó að álagið á spítalana er mjög mikið. Hápunkti þar verður ekki náð fyrr en á næstu dögum.
Hins vegar megi búast við smiti áfram í samfélaginu, að það verði viðvarandi um hríð en hversu lengi er enn ómögulegt að segja. Stór hópur samfélagsins er líklega móttækilegur fyrir veirunni. Ekki er enn vitað hversu stór en það mun koma í ljós í mótefnamælingum sem hefjast síðar í mánuðinum.
„Allt þetta þurfum við að hafa í huga þegar við hugsum um aðgerðir næstu mánaða. Tryggja þarf að faraldur fari ekki aftur á flug svo aðgerðir þurfi ekki að fara aftur á byrjunarreit.“
Takmarkanir settar á stórar samkomur í sumar
En hvað tekur við eftir fjórða maí, eftir að núverandi samkomubann fellur úr gildi? Þórólfur segir að þá hefjist aðgerðir sem miði að því að létta af þeim aðgerðum sem eru nú við lýði. Engin ein góð aðferð, uppskrift, er til og því líklegt að ríki muni aflétta sínum aðgerðum með mismunandi hætti. „Þetta verður að gerast á tiltölulega löngum tíma til að vera viss um að faraldur blossi ekki upp að nýju.“
Sóttvarnalæknir mun á næstu dögum senda tillögur til heilbrigðisráðherra um hvernig aflétta skuli aðgerðunum í skrefum.
Þórólfur sagði að hvert skref muni taka 3-4 vikur og aflétting allra aðgerða í heild því ná yfir einhverja mánuði, „og yfir sumartímann,“ benti hann á. „Landsmenn þurfa að vera undir það búnir að takmarkanir verði settar á stórar samkomur í sumar.“
Þá eru
ákveðnir hlutir sem við verðum að halda áfram, sagði Þórólfur. Landsmenn eru
áfram hvattir til að framfylgja tilmælum um ítarlegan handþvott og
handsprittun. Þá eru þeir einnig hvattir til að halda áfram tveggja metra
fjarlægðarmörkin, að vernda viðkvæma hópa og forðast mannmarga staði. „Þetta
þurfum við að viðhafa út þetta ár og verður kannski viðloðandi við samfélagið þegar að
þessu verður lokið.“
Líkt og Þórólfur greindi frá í viðtali við Kjarnann nýverið er verið að skoða hvaða takmarkanir verði settar á komur ferðamanna hingað til lands og ferðalög Íslendinga erlendis til að forða því að smit berist hingað aftur.
Þórólfur ítrekaði á fundinum að hann bindur ekki vonir við að bóluefni muni leysa vandann í faraldri þessarar veiru. Hann telur langt í að það komist í almenna notkun. „Við verðum að reiða okkur á þessar aðgerðir sem við höfum verið að nota hingað til og þær munu gegna lykilhlutverki í að koma okkur út úr þessum faraldri.“