Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar, segir að þær stjórnarmyndunarviðræður sem gengið hafi best eftir kosningarnar 2016 hafi verið þegar flokkur hans og Björt framtíð ræddu við Samfylkingu og Pírata. „Þar hefðum við náð fram flestum af okkar málum til umbóta í landbúnaði, sjávarútvegi og þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópuumsóknina. En þessir flokkar höfðu bara samanlagt 24 þingmenn af 63. Þegar VG [Vinstri græn] kom inn í viðræðurnar stoppuðu öll þessi mál.“
Viðreisn og Björt framtíð mynduðu á endanum ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokk, sem hafði eins manns meirihluta, í janúar 2017 en sú varð skammlífasta meirihlutastjórn lýðveldistímans og sprakk á endanum í september sama ár vegna uppreist æru-málsins. Björt framtíð þurrkaðist í kjölfarið út og Viðreisn tapaði töluverðu fylgi á meðan að Sjálfstæðisflokkurinn hélt stöðu sinni sem stærsti flokkur landsins og myndaði ríkisstjórn með Vinstri grænum og Framsóknarflokki eftir kosningarnar 2017.
Segir frjálslynt fólk dreifast á marga flokka
Á endanum hafi niðurstaðan, að sögn Benedikts, verið sú að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokki og Bjartri framtíð sem hann vill meina að flokkur hans hafi náð ýmsum góðum málum fram í. Stjórnin hafi hins vegar ekki verið nægilega langlíf til að ljúka þeim.
Benedikt segir að það sé auðvelt að vera alltaf á móti, en í kerfi eins og því íslenska ólíklegt að einn flokkur nái aðstöðu til þess að fá öll sín mál fram. „Við sjáum núna að íhaldsflokkarnir hafa náð saman um ráðherrastólana og halla á ríkissjóði, jafnvel í hagvextinum í fyrra. Frjálslyndishugsjónin á undir högg að sækja, meðal annars vegna þess að frjálslynt fólk dreifist á marga flokka.“
Benedikt hætti sem formaður Viðreisnar í október 2017, skömmu fyrir kosningarnar þá um haustið. Fylgi flokksins mældist þá um 3,3 prósent. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók við formennsku og gegnir henni enn. Viðreisn náði að halda sér inni á þingi í síðustu kosningum, fékk 6,7 prósent atkvæða og fjóra þingmenn, en tapaði rúmlega þriðjungi atkvæða sinna milli ára.
Flokkarnir sem Benedikt segir að hafi náð vel saman í stjórnarmyndunarviðræðum síðla árs 2016, Viðreisn, Samfylking og Píratar, hlutu 28 prósent atkvæða í kosningunum í október 2017. Það var minna fylgi en þeir fengu ári áður. Á þessu kjörtímabili hafa þeir hins vegar ítrekað mælst sameiginlega með á bilinu 36 til 28 prósent fylgi. Í síðustu könnun MMR, sem birt var í apríl 2020, mældist það 36 prósent.
Formaður Samfylkingarinnar hefur ítrekað talað fyrir samstarfi flokkanna
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar sem er stærstur flokkanna þriggja, hefur ítrekað talað fyrir því að þeir myndi kjarna fyrir næstu ríkisstjórn eftir kosningarnar 2021, sem ekki liggur fyrir hvort verði að vori eða hausti.
Í viðtali við Mannlíf í janúar í fyrra sagði Logi að hann vildi ríkisstjórn með Viðreisn, Pírötum og Vinstri grænum. „Ég held að við gætum náð mjög mörgum skemmtilegum og góðum málum á dagskrá ef við myndum mynda ríkisstjórn frá miðju til vinstri þar sem Samfylkingin væri kjölfestuflokkur og við hefðum svo Viðreisn og Pírata öðrum megin við okkur og Vinstri græn hinum megin við okkur.“
Á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem fór fram í mars 2019 sagði hann að Ísland þyrfti ekki jafnvægi Sjálfstæðisflokksins sem byggði á því að örfáir sitja öðru megin á vegasaltinu, með þorra gæðanna en allur almennings héldi jafnvægi hinum megin.
Í janúar 2020 sagði Logi, í umræðum um stöðuna í stjórnmálum í byrjun árs á Alþingi, að það væri kominn tími til að hætta að láta Sjálfstæðisflokkinn endalaust velja sér nýja dansfélaga eftir kosningar og stjórna eftir eigin geðþótta. „Nú er kominn tími samstilltrar, djarfrar og víðsýnnar stjórnar, án Sjálfstæðisflokksins - fyrir allt fólkið í landinu og komandi kynslóðir. Stjórn sem leggur alla áherslu á ríkara félagslegt réttlæti og hefur á sama tíma meiri sköpunarkraft, framsýni og hugrekki.“