Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, gagnrýndi á Alþingi í dag, líkt og forsætisráðherra hafði gert skömmu áður, 10,2 milljarða króna kröfur sjö útgerða á hendur ríkissjóði vegna úthlutunar á makrílkvóta.
Í ræðu sinni um munnlega skýrslu forsætisráðherra um áhrif COVID-19 faraldursins og um viðbrögð stjórnvalda við þeim áhrifum á Alþingi í dag, sagði Bjarni að við núverandi aðstæður þyrftu allir í samfélaginu að leggjast á árarnar. „Því langar mig að segja þetta hér: fiskveiðistjórnunarkerfið okkar er ekki náttúrulögmál. Það er mannanna verk. Aðgangur að auðlindinni, stjórnun veiðanna, hvernig við viljum tryggja sjálfbærni veiðanna, hvaða gjald við ætlum að taka í veiðigjald. Þetta eru allt mál sem við ráðum til lykta hér á Alþingi með lögum og reglum. Möguleg innbyrðis togstreita um aflaheimildir milli útgerða verður ekki leyst á kostnað skattgreiðenda. Það verður ekki þannig.
Nú höfum við tekið til varna í þessu svokallaða makrílmáli. Við munum taka til fullra varna og ég hef reyndar góðar væntingar um að við munum hafa sigur í því máli. En ef svo ólíklega vill til að það mál fari ríkinu í óhag þá er það einfalt mál í mínum huga að reikningurinn vegna þess verður ekki sendur á skattgreiðendur. Reikningurinn vegna þess verður þá að koma frá greininni. Það er bara svo einfalt.“
Um er að ræða fyrirtækin Gjögur hf., Ísfélag Vestmannaeyja hf., Skinney-Þinganes hf., Loðnuvinnslan hf. og Huginn ehf., Eskja hf. og Vinnslustöðin hf.
Í fyrra var makríll færður í kvóta á grundvelli veiðireynslu þar sem aflaheimildir, eða kvótar, voru að mestu færðar til stórútgerða. Ekki var greitt fyrir þann kvóta heldur hann afhentur endurgjaldslaust. Makrílkvótinn hefur verið talinn vera 65 til 100 milljarða króna virði.
„Útilokað“ að tryggja öllum skaðleysi
Í ræðu sinni fór Bjarni einnig yfir það að staðan hefði breyst hratt til hins verra í efnahagslegum skilningi, jafnt hérlendis sem erlendis. Það sem voru svörtustu sviðsmyndir fyrir sex vikum eru þær bjartsýnustu í dag.
Enn ríki töluverð óvissa en fyrstu aðgerðirnar sem gripið hafði verið til hafi verið hannaðar til að grípa þá sem voru í frjálsu falli. Þær hafi skipt verulegu máli. Hann nefndi til að mynda hlutabótaleiðina í því samhengi.
Sumt sem kynnt hafi verið 21. mars síðastliðinni sé enn í lokafrágangi, til dæmis brúarlánin svokölluðu. „Ég geri ráð fyrir því að ég geti skrifað undir samkomulag um þau á fimmtudaginn. Og í framhaldinu mun bankinn þá semja við fjármálafyrirtæki og lánin þá standa til boða.“
Bjarni sagði samt sem áður að hann yrði að vera hreinskilinn og segja að það yrði ekki hægt að lofa öllum að komast efnahagslega skaðlausum úr þessu ástandi. „Það er útilokað.“
Þó væri margt eftir ógert. Þeir sem hefðu til að mynda lokað starfsemi sinni fyrir samfélagið allt hljóti að eiga það skilið að fá stuðning frá samfélaginu. Að því yrði hugað í næstu aðgerðum, sem verða kynntar í vikulok.