„Ég vil segja það að hér að ég hef verið gríðarlega ánægð með þá samstöðu sem maður hefur skynjað í samfélaginu í því að takast á við veiruna. Bæði fyrirtæki og fólk hafa þar sýnt mikla ábyrgð. Flokkar á Alþingi hafa sýnt mikla ábyrgð. Þetta er dýrmætt.
En þá verður maður líka reiður þegar fyrirtæki í sjávarútvegi gera kröfu á ríkið upp á ríflega tíu milljarða vegna makrílúthlutunar.“
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þegar hún flutti munnlega skýrslu um áhrif COVID-19 faraldursins og um viðbrögð stjórnvalda við þeim áhrifum á Alþingi í dag.
Kjarninn greindi frá því á laugardag að sjö útgerðir krefji íslenska ríkið um samtals 10,2 milljarða króna auk hæstu fáanlegu vaxta vegna fjártjóns sem þau telja sig hafa orðið fyrir vegna makrílkvóta sem fór ekki til þeirra á árunum 2011 til 2018. Útgerðirnar ákváðu að höfða mál eftir að tveir dómar féllu í Hæstarétti í desember 2018 sem sögðu að ekki hefði verið rétt haldið á úthlutun á makrílkvóta.
Katrín sagði þetta ekki góða leið til að efla samstöðu í samfélaginu. „Það er ekki góð leið til að vera á sama báti í gegnum þetta ferðalag sem við erum stödd í. Þó ég telji að ríkið hafi góðan málstað í þessu máli þá finnst mér eðlilegt að þessi fyrirtæki íhugi það að draga þessar kröfur á til baka. Nú reynir nefnilega á ábyrgð okkar allra.“
Kvóta úthlutað án endurgjalds í fyrra
Um er að ræða fyrirtækin Gjögur hf., Ísfélag Vestmannaeyja hf., Skinney-Þinganes hf., Loðnuvinnslan hf. og Huginn ehf., Eskja hf. og Vinnslustöðin hf.
Eskja krefst þess að fá rúmlega tvo milljarða króna í bætur, Loðnuvinnslan og Skinney-Þinganes vilja rúman milljarð króna og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum krefst þess að fá tæpan milljarð króna auk vaxta. Huginn vill fá 839 milljónir króna og Gjögur, sem er næst stærsti eigandi Síldarvinnslunnar (Samherji er stærsti eigandinn) krefst 364 milljóna króna. Í stefnu Gjögurs er einnig krafist bóta vegna kostnaðar við að leigja aflaheimildir á árunum 2015 til 2018.
Í fyrra var makríll færður í kvóta á grundvelli veiðireynslu þar sem aflaheimildir, eða kvótar, voru að mestu færðar til stórútgerða. Ekki var greitt fyrir þann kvóta heldur hann afhentur endurgjaldslaust. Makrílkvótinn hefur verið talinn vera 65 til 100 milljarða króna virði.