Fimm útgerðir hafa ákveðið að falla frá málsókn um skaðabætur vegna fjártjóns sem þau töldu sig hafa orðið fyrir vegna makrílkvóta sem fór ekki til þeirra á árunum 2011 til 2018. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækjunum.
Fyrirtækin sem um ræðir eru Eskja, Gjögur, Ísfélag Vestmannaeyja, Loðnuvinnslan og Skinney-Þinganes. Sjávarútvegsfyrirtækin Huginn og Vinnslustöðin skrifa ekki undir tilkynninguna.
„Svo sem fram hefur komið munu áhrif heimsfaraldurs kórónuveirunnar hafa víðtæk áhrif á ríkissjóð og allt íslenskt samfélag. Fyrir endann á því verður ekki enn séð, því miður. Það er hins vegar á svona stundum sem styrkleikar íslensks samfélags koma vel í ljós. Víðtæk samstaða og baráttuhugur hafa einkennt samfélagið síðustu vikur og mánuði. Nú verða allir að leggja lóð á vogarskálar. Af þessum sökum hafa undirrituð fimm sjávarútvegsfyrirtæki tekið þá ákvörðun að falla frá kröfum á hendur íslenska ríkinu vegna ágreinings um úthlutun aflaheimilda í makríl,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram að þann 6. desember 2018 hafi verið kveðnir upp tveir dómar Hæstaréttar, þar sem viðurkennd hafi verið skaðabótaskylda íslenska ríkisins vegna fjártjóns sem tvær útgerðir (Ísfélag Vestmannaeyja hf. og Huginn ehf.) töldu sig hafa orðið fyrir með því að fiskiskip þeirra hefðu á grundvelli reglugerða verið úthlutað minni aflaheimildum í makríl árin 2011 til 2014 en skylt hefði verið samkvæmt lögum. „Með dómum þessum var því staðfest að lög hafi verið brotin af hálfu þáverandi sjávarútvegsráðherra við úthlutun aflaheimilda og að leiddar hefðu verið að því líkur að fjárhagslegt tjón hafi hlotist af þeirri háttsemi. Umboðsmaður Alþingis komst að sambærilegri niðurstöðu vegna þessarar meðferðar ráðsherra.“
Í kjölfar þessara dóma hefðu sjö útgerðarfélög höfðað, um miðbik síðasta árs, mál á hendur íslenska ríkinu til heimtu skaðabóta vegna þess tjóns sem þau urðu fyrir vegna rangrar úthlutunar makrílkvóta, á tímabilinu 2011 til 2018, eins og fram hefur komið.
„Árétta ber að enn hefur ekki verið dæmt um hvert hið fjárhagslega tjón hlutaðeigandi aðila var á því tímabili sem aflaheimildum var úthlutað í andstöðu við sett lög. Það hefur raunar ekki verið grundvallarþáttur málsins. Það sem mest er um vert, er að settum lögum sé fylgt og ábyrgð fylgi því þegar út af bregður. Það á við um fyrirtæki, einstaklinga og stjórnvöld. Þetta er einn grundvallarþáttur réttarríkis,“ segir enn fremur í tilkynningunni.
Langhæsta krafan frá Ísfélagi Vestmannaeyja
Kjarninn greindi frá því um helgina að langhæsta krafan hefði verið frá Ísfélagi Vestmannaeyja, sem krafðist tæplega 3,9 milljarða króna auk vaxta úr ríkissjóði. Stærsti eigandi Ísfélagsins er Guðbjörg Matthíasdóttir. Félög í eigu Guðbjargar og fjölskyldu hennar eru einnig stærstu eigendur Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins.
Eskja krafðist þess að fá rúmlega tvo milljarða króna í bætur, Loðnuvinnslan og Skinney-Þinganes vildu rúman milljarð króna og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum krefst þess að fá tæpan milljarð króna auk vaxta. Huginn vill fá 839 milljónir króna og Gjögur, sem er næst stærsti eigandi Síldarvinnslunnar (Samherji er stærsti eigandinn) krafðist 364 milljóna króna. Í stefnu Gjögurs var einnig krafist bóta vegna kostnaðar við að leigja aflaheimildir á árunum 2015 til 2018.
Sagði ríkið hóta útgerðunum sem áttu „lögboðinn rétt“ á makrílkvóta
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, sagði í Morgunblaðinu í morgun að þótt það væru erfiðir tímar þá giltu enn lög. „Ég hef oft heyrt í fréttum að ríkið hafi tapað máli og verið dæmt til greiðslu skaðabóta í kjölfarið en aldrei áður heyrt því hótað að skattleggja þá sem urðu fyrir skaðanum sérstaklega fyrir skaðabótunum. Ég er ekki löglærður en ég að held ég geti fullyrt að þessa lagatúlkun sé ekki að finna í lögbókum réttarríkja.“
Vinnslustöðin er ekki ein af þeim útgerðum sem ákváðu að falla frá málsókn.
Sigurgeir sagði að útgerðirnar hefðu verið beittar rangindum og að þær, sem væru frumkvöðlar í makrílveiðum, gætu ekki verið sökudólgar í málinu. Þvert á móti hefðu útgerðirnar fært þjóðinni mikil verðmæti. Ríkið hefði beitt ólögmætri nálgun við úthlutun makrílkvóta á árunum 2011 til 2018 og fært slíkan frá þeim útgerðum sem hefðu átt „lögboðinn rétt“ til annarra sem áttu hann ekki.
Ekkert gjald hefur nokkru sinni verið greitt fyrir úthlutun makrílkvóta. Í fyrravor var ákveðið að fastsetja úthlutun hans í lög án þess að endurgjald hafi verið tekið fyrir.
Ekki góð leið til að efla samstöðu í samfélaginu
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði á Alþingi í gær að ef svo ólíklega færi að ríkið myndi tapa málinu þá væri það einfalt mál í hans huga að reikningurinn vegna þess yrði ekki sendur á skattgreiðendur. „Reikningurinn vegna þess verður þá að koma frá greininni. Það er bara svo einfalt,“ sagði hann.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti munnlega skýrslu um áhrif COVID-19 faraldursins og um viðbrögð stjórnvalda við þeim áhrifum á Alþingi í gær. Þar gerði hún kröfu útgerðanna að umtalsefni. „Ég vil segja það að hér að ég hef verið gríðarlega ánægð með þá samstöðu sem maður hefur skynjað í samfélaginu í því að takast á við veiruna. Bæði fyrirtæki og fólk hafa þar sýnt mikla ábyrgð. Flokkar á Alþingi hafa sýnt mikla ábyrgð. Þetta er dýrmætt.
En þá verður maður líka reiður þegar fyrirtæki í sjávarútvegi gera kröfu á ríkið upp á ríflega tíu milljarða vegna makrílúthlutunar.“
Katrín sagði þetta ekki góða leið til að efla samstöðu í samfélaginu. „Það er ekki góð leið til að vera á sama báti í gegnum þetta ferðalag sem við erum stödd í. Þó ég telji að ríkið hafi góðan málstað í þessu máli þá finnst mér eðlilegt að þessi fyrirtæki íhugi það að draga þessar kröfur á til baka. Nú reynir nefnilega á ábyrgð okkar allra.“